Borgarlínan - forkynning breyting á aðalskipulagi Rvk. og Kóp.

Umsagnarnefnd Landssamtaka hjólreiðamanna (LHM) hefur skoðað kynningu á drögum að breytingu á aðalskipulagi sveitarfélaganna Kópavogs og Reykjavíkurborgar.

Drög að breytingartillögum í Kópavogi og Reykjavík fjalla um tillögu að legu Borgarlínunnar og tillögur að staðsetningu kjarnastöðva. Í drögum að skipulagsgögnum eru jafnframt kynntar hugmyndir að leiðbeinandi staðsetningum almennra stöðva, viðmiðum um hönnun göturýmis og forgang almenningssamgangna og virkra ferðamáta. Jafnframt var skoðuð skýrsla um Borgarlínuna 1. lotu, 1. útgáfa.

 

 Drögin á samráðsgatt.

 

 Umsögn LHM.

 

Afstaða LHM til Borgarlínunnar.

Landssamtökin eru hlynnt lagningu Borgarlínu og telja samtökin að hún sé nauðsynleg aðgerð til að hægt sé að þétta byggð og byggja innávið og snúa frá þróun um meiri dreifingu byggðar, sem hefur verið ríkjandi á höfuðborgarsvæðinu undangengna áratugi. Þéttari byggð er líkleg til að styðja við hjólreiðar og auka hlutdeild þeirra. Hlutdeild hjólreiða er að jafnaði mest í nærumhverfi þar sem fjarlægðir eru hóflegar og umhverfið styður við þær svo sem með góðum hjólastígum. Gera má ráð fyrir að hlutdeild hjólreiða verði mest í þéttri blandaðri byggð þar sem flestar ferðir eru á bilinu 0,5 – 5 km. Margir fara mun lengri vegalengdir og þær ferðir skipta miklu máli en hlutdeild lengri hjólaferða í ferðavenjum er þó minni og þar má gera ráð fyrir að hlutdeild borgarlínunnar verði meiri.
 

Skýrsla um Borgarlínuna 1. lotu er vel gerð og setur fram skýra mynd af legu Borgarlínunnar, staðsetningu stöðva, vegsniði og fyrirkomulagi gatnamóta. Á nokkrum stöðum vantar þó útfærslur og tengist það sennilega þeim stöðum þar sem útfærsla er ekki frágengin eða er sérstaklega flókin. Það á t.d. við um þverun Elliðaáa, þverun yfir Sæbraut, gatnamótum Burknagötu/Snorrabrautar og tengingum við Fossvogsbrú. LHM er sammála legu línunnar, og staðsetningu stöðva. Vegsnið og fyrirkomulag gatnamóta er sannfærandi að mestu. LHM leggja þó áherslu á að hjólreiðastígar verði hannaðir og lagðir í samræmi við þá stefnu að gangandi og hjólandi séu í fyrsta sæti í öllu skipulagi, hönnun og framkvæmdum. Athugasemdir eru gerðar við einstök gatnamót í umsögninni.