Greinargerd LHM vegna slyss í Ártúnsbrekku 21. desember 2015

Greinargerd LHM vegna slyss í Ártúnsbrekku 21. desember 2015

Vísað er í :

Mál nr.: 2015-122U023
Dagsetning: 21. desember 2015
Staðsetning: Ártúnsbrekka
Atvik: Ekið á hjólreiðamann

http://www.rnsa.is/media/3623/artunsbrekka-21122015-ii.pdf

Starfssvið RNSA: “Rannsókn samkvæmt lögunum skal eingöngu miða að því að leiða í ljós orsakir samgönguslysa og samgönguatvika, en ekki að skipta sök eða ábyrgð, með það að markmiði að draga úr hættu á sams konar slysum og atvikum og afleiðingum sambærilegra slysa.”


Samantekt

Fulltrúar Landssamtaka hjólreiðamanna hafa skoðað skýrslu RNSA og gera ákveðna fyrirvara við efnistök í skýrslunni, mati á orsökum slyssins og tillögum til úrbóta.

Orsök þessa slyss virðist fyrst og síðast að vera að leita í athyglisleysi ökumanns, en einnig of miklum ökuhraða sem bæði minnkar þann tíma sem hann hefur til að bregðast við hættum framundan og eykur líkur á alvarlegum meiðslum eða dauðsfalli við árekstur. Að auki voru þrír hlutir við framrúðu ökumanns sem trufluðu útsýni hans auk þess sem hann hafði verið á langri næturvakt. Mögulega hafa aðrir þættir haft orsakaáhrif en þeir þættir eru ekki leiddir til lykta í skýrslunni.

Orsakanna virðist ekki mega rekja til þess að hjólað var um veg sem var hættulegur fyrir hjólreiðamenn eða að hjólreiðamaðurinn gætti ekki nægilegrar aðgæslu með því að hjóla á veginum eða að sýnileiki hjólreiðamannsins væri ekki eins og best verður á kosið.

Alvarlegt er að hjólreiðamaðurinn, sem er saklaust fórnarlamb umferðarslyssins, er í huga almennings orðinn að sökudólgi í þessu ömurlega slysi í kjölfar fréttaflutnings um skýrsluna. LHM óskar eftir því að betur verði hugað að þessum afleiðingum í framtíðinni.

Talað er um að ekki hafi verið bakvísandi spegill á hjólinu og að hann hafi verið með, til viðbótar lágmarks lögboðnum útbúnaði, endurskin þar sem það lendir ekki í ljósgeisla bifreiða og að neonlitur á fatnaði auki ekki sýnileika við þessi birtuskilyrði. Ekkert af þessu er lögboðið né aðfinnsluvert. Ekkert af þessu er að finna í drögum að nýrri reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla. Ólíklegt er að þetta hafi skipt máli fyrir orsök slyssins. Jafnframt er ekki fjallað um þann lögboðna búnað sem var á hjólinu og skiptir mestu máli fyrir sýnileika hjólreiðamanns aftanfrá, ljós að aftan og glitaugu í fótstigum.

Því er haldið fram að hjólreiðamaður hafi ekki gætt nægilegrar aðgæslu með því að hjóla á veginum. Þessi fullyrðing er með ólíkindum. Vegurinn er lögboðin leið hjólandi a.m.k. meðan ekki er boðið upp á stíg meðfram þessari leið. Eitt helsta baráttumál Landssamtaka hjólreiðamanna frá upphafi er einmitt að slíkar stígar verði í boði meðfram öllum stofnbrautum. Hjólreiðamaðurinn hafði valið þessa leið vegna þess að aðrar leiðir á stígum voru ófærar. Vegurinn er margar akreinar og umferð á þessum tíma er mjög lítil og lýsing á veginum það góð að ökumaður á auðvelt með að sjá það sem framundan er.

Með vísan í erlendar reglur um hraðbrautir „motorway“ beinir RNSA „þeirri tillögu til Innanríkisráðuneytisins að taka til skoðunar að hjólreiðar verði bannaðar á fjölakreinavegum í þéttbýli þar sem umferðarþungi og hraði er mikill“. Hraðbrautir hafa ekki verið leiddar í lög á Íslandi og er það okkar skilningur að ekki sé hægt að banna för hjólandi um vegi landsins með þeim hætti sem væri gert á hraðbrautum nema fyrst verði boðið upp á sambærilegar leiðir fyrir hjólandi. Ef hentugir stígar liggja meðfram stofnbrautum er sjálfgefið að fólk hjólar þar. Til þess þarf engin boð né bönn.

Að mati okkar er skýrslan lituð af of bíl miðuðum sjónarmiðum. Lausnin sem er lögð til er fyrst og fremst að banna umferð hjólandi til samgangna á fjölakreina vegum. Í því borgarumhverfi sem byggt hefur verið upp á höfuðborgarsvæðinu hefur öllum samgöngumátum öðrum en bílnum verið vísað í annað sæti og aðrar samgöngur en með bílum eru mun erfiðari enn ella vegna þessa. Það vantar leiðir víða, margar leiðir eru lengri og þjónusta við leiðir er mun lakari en á vegum með bílaumferð. Það á að vera keppikefli ríkisvaldsins og sveitarfélaganna að snúa þessari þróun við.


Athugasemdir Landssamtaka hjólreiðamanna við skýrslu um mál nr. 2015-122U023 - banaslys í Ártúnsbrekku.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa RNSA birti nýverið skýrslu um banaslys í umferðinni þar sem maður á hjóli lést í Ártúnsbrekku á Vesturlandsvegi þann 21. desember 2015. Fulltrúar Landssamtaka hjólreiðamanna LHM hafa rýnt í skýrslu RNSA og vilja koma á framfæri athugasemdum við skýrsluna.

Athugasemdir LHM beinast að eftirtöldum þáttum:

  • Atriðum sem ekki eru skoðuð í rannsókn RNSA eða a.m.k. ekki birt í skýrslunni og geta hafa talsvert vægi fyrir mati á orsökum slyssins.
  • Mati RNSA á orsökum eða ástæðum slyssins.
  • Tillögum RNSA um úrbætur til að koma í veg fyrir samskonar slys í framtíðinni.

 

Atriði sem skoða hefði átt betur og/eða greina frá niðurstöðum skoðunar í skýrslunni.

  1. Í skýrslunni kemur fram að hjólreiðamaðurinn hafi verið með blikkandi afturljós. Ekkert er fjallað um gerð ljóssins, ljósstyrk eða aðra þætti eins og hvort það hafi verið hulið. Virk lýsing með fram og afturljósi á reiðhjólinu er mikilvægasta ráðstöfun hjólandi til að vera sýnilegur í myrkri og skýtur því skökku við að ekki skuli vera lagt mat á afturljósið. Ef lagt var mat á það hefði það átt að koma fram í skýrslunni. Ljósabúnaður er skyldubúnar samkvæmt reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla og var reiðhjólið bæði búið fram og afturljósi.
  2. Í skýrslunni kemur fram að á fótstigum reiðhjólsins hafi verið endurskin en ekki kemur fram í skýrslunni hvort lagt hafi verið mat á virkni endurskins í fótstigunum. Þrátt fyrir að reiðhjólið hafi verið búið endurskini í fótstigum sem er neðarlega og lendir í ljóskeilu bifreiða og er á hreyfingu og að ekki skuli fjallað meira um það í skýrslunni er fjallað um ljóskeilu bifreiða og endurskin sem hægt er að hafa um ökkla og hné hjólreiðamanna. Endurskin í fótstigum er líka skyldubúnaður reiðhjóla samkvæmt reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla.
  3. Í skýrslunni er rætt um útbúnað reiðhjólsins og hjólreiðamannsins en ekki er tekið skýrt fram að reiðhjólið virðist í einu og öllu uppfylla kröfur í reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla.
  4. Götulýsing á Vesturlandsvegi í Ártúnsbrekku er mjög góð lýsing með natríumperum og má leiða líkum að því að allt það sem er á götunni sjáist vel óháð því hvort það er með ljós eða endurskin. Ekkert mat er lagt á götulýsinguna og hvort ökumaður hefði átt að sjá hjólreiðamanninn í götulýsingunni einni. Voru t.d. allar luktir lýsandi? Samkvæmt reynslu fulltrúa LHM er lýsingin það góð að allir ökumenn ættu að sjá það sem framundan er.
  5. Fram hefur komið hjá aðstandenda á Facebook að hjólreiðamaðurinn var vanur að fara aðrar öruggari leiðir en vegna ófærðar á stígum hafi hann valið þessa leið. Í skýrslunni er ekki lagt mat á hvort stígar hafi verið ruddir fyrir þennan morgun nægjanlega til að hjólreiðamaðurinn hafi átt auðvelt með að velja aðra hættuminni leið á vinnustað sinn. Ekki kemur heldur fram að rætt hafi verið við aðstandendur eða vinnufélaga hans um hvaða leið hann valdi venjulega til vinnu. Val er um aðra leið sem er lengri og hefur verri hæðarlegu og var að öllum líkindum ekki rudd á þessum tíma.
  6. Í skýrslunni kemur ekki fram hvort önnur umferð hafi verið á Vesturlandsvegi sem e.t.v. hefði getað átt þátt í slysinu eða getað varpað ljósi á atburðarásina áður en slysið gerist. Ef engin umferð var hefði átt að taka það fram að okkar mati.
  7. Í skýrslunni kemur ekki fram hvort vitað sé eða lagt mat á hvort hjólreiðamaðurinn hafi skyndilega á einhvern hátt farið í veg fyrir bílinn á þeirri akrein sem hann var. Að mati fulltrúa LHM var hjólreiðamaðurinn kominn of innarlega á veginn (3. akrein frá vinstri) of snemma miðað við að hann ætlaði áfram undir Höfðabakkabrúnna. Öruggasta þverun yfir fráreinar upp á Höfðabakkabrú er tæplega 200 m austar þar sem hægt er að þvera fráreinarnar stystu leið eftir stopp og að líta aftur fyrir sig. Ef rétt er eins og skýrslan segir að hann hafi verið komin á 3. akrein frá vinstri, þ.e. 2. akrein frá hægri og það langt inn á akreinina að hann er bókstaflega komin í veg fyrir bifreiðina gæti það verið einn af orsakaþáttum slyssins og ætti að vera tiltekin í skýrslunni sem slík. 2. akrein frá hægri er í raun 1. akrein frá hægri m.v. að akrein sem lengst er til hægri er merkt sem frárein upp á Höfðabakkabrú en í reynd virkar hún sem 2. akrein vegna þess að tæpa 200 m. er frá árekstrarstað að því að umferð sem víkur til hægri á tveimur aðreinum upp á Höfðabakkabrú aðskilst frá akrein sem heldur áfram undir brúnna.
  8. Samkvæmt skýrslunni má ætla að akstursleið bifreiðarinnar hafi verið undir Höfðabakkabrú. Í skýrslunni kemur fram að bifreiðinni var ekið á 3. akrein frá vinstri og má ætla að engin akreinaskipti hafi verið framkvæmd né fyrirhuguð. Æskilegt hefði verið að tiltaka endastað bifreiðarinnar eða taka af öll tvímæli um aksturleið. Miðað við lýsingu í skýrslu er hjólreiðamaður komin það langt inn á akrein frá vinstri að ökumaður lendir á honum þrátt fyrir að hann hafi reynt að víkja frá. Ekki kemur fram hvort hann hafi stigið á hemla og bifreiðin e.t.v. rásað vegna þess. Rétt hefði verið að taka fram ef hann hefur ekki stigið á hemla.
  9. Ekki kemur fram um framburð vitna um vökuástand ökumanns, hvorki frá ökumanni né farþega né öðrum vitnum. Var t.d. samtal milli ökumanns og farþega í ökuferðinni?
  10. Ekki kemur fram hvort tækjanotkun ökumanns hafi verið könnuð rétt áður en slysið varð. Fram kemur að í sjónsviði ökumanns var gps tæki, aksturstölva og verðskrá en ekki kemur fram hvernig gsm síma var háttað. Hæð ökumanns og sjónsvið yfir mælaborð kemur ekki fram eða staða (hæð) sætis miðað við hæð ökumanns.
  11. Mat á áreiðanleika vitna kemur ekki fram. Leiða má líkur að því að það geti verið bjögun eða bias í framburði vitna eftir stöðu þeirra. Hjólreiðamaðurinn beið bana og getur ekki komið sínum sjónarmiðum á framfæri en ökumaður og farþegi sem eftir lifa hafa e.t.v. ósjálfrátt ákveðin sjónarmið vegna þeirrar stöðu sem þeir eru í. Hver önnur vitni eru og hvað þau voru mörg kemur ekki fram í skýrslunni né hvað þau sáu á hvaða tímapunkti. Komu þau að eftir slysið eða voru þau sjónarvottar að aðdraganda eða slysinu sjálfu?
  12. Mat á áhættu sem felst í því að hjóla á fjölakreina vegum með 60 km/klst hámarkshraða eða hærri er ekki sett fram. Þar hefði t.d. verið hægt að líta á slysareynsluna á Íslandi. Hafa orðið mörg slys á fjölakreina vegum og eru þau hlutfallslega fleiri eða alvarlegri en á vegum með 50 km/klst hámarkshraða eða lægri? Í því sambandi má benda á að síðasta slysið þar sem hjólreiðamaður lést í kjölfar slyss á fjölakreina vegi virðist hafa verið árið 1984 þegar maður lést eftir slys á Hafnarfjarðarvegi. Það liðu 31 ár á milli þessara slysa. Á tímabilinu 1984 til 1997 létust sex aðrir hjólreiðamenn í umferðarslysum og var engin þeirra að hjóla á fjölakreina vegi. Á tímabilinu 1998-2015 lést engin hjólreiðamaður í umferð. Þegar öll banaslys í umferð eru skoðuð frá 1984 til 2016 virðast hjólreiðar ekki áhættusöm iðja. Á því tímabili létust átta hjólreiðamenn en 653 aðrir í umferðinni. Af þeim voru 309 ökumenn, 194 farþegar í bifreið, 35 ökumenn bifhjóla, 4 farþegar bifhjóla, 98 gangandi vegfarendur og 13 aðrir vegfarendur í umferðinni. (12. lið bætt við 22. mars)

 

Mat RNSA á orsökum eða ástæðum slyssins.

Orsakagreining RNSA er eftirfarandi:

  1. Vegurinn er hættulegur fyrir hjólreiðamenn
  2. Hjólreiðamaðurinn gætti ekki nægilegrar aðgæslu með því að hjóla á veginum
  3. Ökumaðurinn var ekki með fulla athygli við aksturinn og sá hjólreiðamanninn of seint
  4. Ökumaður ók yfir leyfðum hámarkshraða
  5. Skyggni út um framrúðu bifreiðarinnar var skert
  6. Sýnileiki hjólreiðamannsins var ekki eins og best verður á kosið
Mat fulltrúa LHM á mati RNSA er hér að neðan við tölusett atriði.
  1. Að mati fulltrúa LHM er vegurinn vissulega varasamur þar sem saman fer hár ökuhraði og margar akreinar og varasamar fráreinar upp á Höfðabakkabrú. Að mati okkar er þó tæpast hægt að kalla það orsakaþátt í slysinu. LHM mælir ekki með hjólreiðum á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu en við vissar kringumstæður er ekkert annað í boði til dæmis þar sem stígar eru ekki fyrir hendi, eða þegar stígar lengja leiðina umtalsvert eða þegar færð á stígum er þannig að hjólreiðar eru útilokaðar þar. Þá hjóla sumir ferðamenn um stofnbrautirnar til að geta ratað um bæinn en engar merkingar eru komnar á stígum enn sem komið er. Ekki er leitt í ljós í skýrslu RNSA hvað olli því að hjólreiðamaðurinn valdi þessa leið þennan dag eða hvort hún hafi verið hluti af daglegri leið hans. Ef að líkum lætur er hún stysta og greiðasta leið hans frá heimili til vinnu. Hann var líka á ferðinni á þeim tíma þegar lítil umferð er um Vesturlandsveginn og er það varla tilviljun.
  2. Að mati fulltrúa LHM er ekki hægt að fullyrða að hjólreiðamaðurinn hafi ekki gætt nægilegrar aðgæslu með því að hjóla á veginum. Fram hefur komið hjá aðstandenda að hann hafi valið þessa leið vegna ófærðar. Miðað við umferðarlög er hjólreiðamaðurinn á þeirri akrein sem lengst er til hægri miðað við akstursstefnu en um staðsetningu hans á akreininni verður ekkert fullyrt af framkomnum gögnum í skýrslunni. Að mati fulltrúa LHM er þó öruggara að hjóla lengst til hægri á fráreininni þar til hægt er að þvera fráreinar uppá Höfðabakkabrú með sem öruggustum hætti með því að stoppa og líta aftur fyrir sig og fullvissa sig um að hægt sé að þvera afreinar sem skemmsta leið án hættu.
  3. Að mati fulltrúa LHM er meginorsök slyssins aðgæsluleysi ökumanns sem ekki sér það sem er fyrir framan hann á veginum þrátt fyrir góða lýsingu og þrátt fyrir að reiðhjólið er með lögskyldan búnað til að sjást að aftan, rautt afturljós og glitaugu í fótstigum.
  4. Að mati fulltrúa LHM er of hár ökuhraði einnig orsakavaldur í slysinu.
  5. Að mati fulltrúa LHM er búnaður í framrúðu sem skyggir á útsýni fram á veginn líklegur orsakavaldur að slysinu. Útsýni ökumanns miðað við mælaborð og tækjabúnað í framrúðu hefði átt að koma fram í skýrslunni að okkar mati þannig að hægt hefði verið að leggja mat á útsýn ökumanns og þátt hans í slysinu.
  6. Að mati fulltrúa LHM er ekki hægt að fullyrða að sýnileiki hjólreiðamanns hafi ekki verið eins og best verður á kosið út frá efni skýrslunnar. Hann virðist í einu og öllu hafa verið búin eins og lög gera ráð fyrir og gott betur. Ekki er lagt mat á sýnileika í þeirri götulýsingu sem var á árekstrarstað og ekki er lagt mat á lýsingu frá blikkandi afturljósi eða virkni endurskins á fótstigum sem eru þau atriði sem skipta höfuðmáli fyrir sýnileika hjólreiðamanns.
Mat fulltrúa LHM á viðbótarþáttum sem gætu einnig verið orsakavaldar að slysinu.

Í skýrslunni er ekki lagt mat á vökuástand ökumanns eða greint frá hvort tækjanotkun hafi verið í aðdraganda slyssins. Ekki er greint frá gsm fyrirkomulagi í bifreiðinni eða hvort gsm sími hafi verið notaður skömmu fyrir slysið eða hvort það hafi verið athugað. Þetta getur verið orsakavaldur að slysinu en skert athygli ökumanns vegna syfju eða vegna tækjanotkunar eru vel þekktir orsakavaldar umferðarslysa. Ekki kemur fram hvort samtal hafi verið í gangi milli ökumanns og farþega í ökuferðinni.

 

Tillögur RNSA um úrbætur til að koma í veg fyrir samskonar slys í framtíðinni.

Tillögum RNSA er skipt í tvennt, annarsvegar tillögur í öryggisátt og hinsvegar ábendingar. Hér verður bara fjallað um tillögur í öryggisátt.

Tillögur í öryggisátt.
Hjólreiðar á fjölakreinavegi með 60 km/klst hámarkshraða eða hærri.

Taka má undir það álit RNSA sem flestir eru sammála um að hjólreiðar á slíkum vegum geta verið varasamar og að líkur á alvarlegum áverkum eru miklar ef árekstrar verða. LHM mælir sem fyrr segir ekki með hjólreiðum á slíkum akbrautum og fræðsla samtakanna og leiðbeiningar miða fyrst og fremst við akbrautir með 50 km hámarkshraða eða undir í slíku borgarumhverfi. Að mati fulltrúa LHM gengur RNSA þó of langt með því að beina þeirri tillögu til Innanríkisráðuneytisins að taka til skoðunar að hjólreiðar verði bannaðar á fjölakreinavegum í þéttbýli þar sem umferðarþungi og hraði er mikill. Að okkar mati gefa niðurstöður skýrslunnar ekki ástæðu til að leggja slíkt til útfrá orsök slyssins eins og við metum þær orsakir samanber málflutning hér að framan. Orsök slyssins virðist fyrst og síðast vera aðgæsluleysi ökumanns bifreiðarinnar en ekki er sýnt fram á að hjólreiðamaður hafi skyndilega komið í veg fyrir hann á akrein þeirri sem hann var á. Ef ökumaður hefði ekið aftan á bifreið og valdið stórslysi eða bana sem oft hefur gerst hefði þá verið lagt til að banna bílinn fyrir framan? Bann af þeim toga sem þarna er lagt til er í alla staði of víðtækt og sérstaklega í ljósi þess að heimild er til þess í 2. mgr. 81. gr. umferðarlaga að banna tiltekna umferð á vegum. Lögreglustjóri getur, að fengnum tillögum sveitarstjórnar, svo og forstjóra Vegagerðarinnar, ef um þjóðveg er að ræða, kveðið á um önnur varanleg sérákvæði um notkun vegar til umferðar, svo sem … bann við tiltekinni umferð. Augljóslega er hægt að beina slíkum tilmælum til sveitarstjórna og forstjóra Vegagerðarinnar og eftir ákveðin feril að banna umferð reiðhjóla á þeim vegaköflum sem eru taldir of varasamir til að hjóla á. Að mati LHM ætti slíkt bann aðeins að koma til eftir að mat hefur verið lagt á hættuna og að lagðir hafi verið stígar meðfram sem þjóna sama tilgangi og vegurinn fyrir umferð hjólandi og gangandi.

Reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla.

Ekki hefur verið sýnt fram á í skýrslunni að sýnileiki reiðhjóls eða hjólreiðamanns hafi verið ábótavant í þessu slysi. Þvert á móti virðist hann hafa verið ákaflega vel búin hvað varðar fatnað og búnaður reiðhjólsins virðist hafa uppfyllt reglugerð um gerð og búnað reiðhjóla. Að mati LHM er þó sjálfsagt að endurskoða tæplega 25 ára gamla reglugerð og mun slík vinna vera í gangi á Samgöngustofu.

Aukahlutir í sjónsvið ökumanns út um rúður ökutækja.

Fulltrúar LHM taka undir tillögur RNSA um þetta efni.

 

Tillögur LHM um úrbætur við Vesturlandsveg og í iðnaðarhverfunum á Hálsum og Höfðum.

Stofnstígur “meðfram” Vesturlandsvegi.

Það er alvarlegt mál hversu illa er hlúð að aðgengi hjólandi umferðar inn í iðnaðar- og atvinnuhverfum hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Á þeim leiðum hafa flest alvarleg umferðarslys orðið á síðustu árum, þar sem ökumenn á reiðhjólum og bifreiðum skella saman. Mislæg gatnamót draga stórlega úr samgöngujafnræði í þéttbýli með því að lengja leiðir hjólandi og gangandi - eins og er t.d. í kringum umferðarmannvirkin í Elliðaárdalnum og í Ártúnshöfða og við Höfðabakka.

Meðfram Miklubraut og Vesturlandsvegi og inn í iðnaðarhverfið á Hálsum vantar stofnstíg fyrir hjólandi umferð sem gæti verið augljós merkt leið fyrir hjólandi því i hverfinu eru stórir vinnustaðir þar sem margir hjóla til vinnu einkum á sumrin. Vesturlandsvegurinn er stysta leiðin inní Hálsahverfið og það sem skiptir meira máli fyrir suma, sú leið sem hefur besta hæðarlegu. Hæsti punktur á Vesturlandsveginum er 50 m yfir sjávarmáli en er tæplega 70 m á gatnamótum Höfðabakka/Bæjarháls/Strengs. Stofnstígurinn gæti mögulega legið um undirgöng rétt sunnan Höfðabakkabrúarinnar í framtíðinni. Stígtenging gæti verið í vestur meðfram Straumi niður Ártúnsbrekku á stíg við Rafstöðvarveg á móts við hitaveitustokkinn. Nauðsynlegt er að uppfæra stíg eftir hitaveitustokknum í vestur yfir Elliðaárnar og gera hann öruggan. Í austur gæti stígtenging legið meðfram Grjóthálsi og Hesthálsi að Krókhálsi og áfram meðfram Vínlandsleið. Galli er þó að göngustígur í undirgöngum undir Suðurlandsveg er of mjór og er með skerta stígsýn. Önnur leið sem fljótlegra er að gera en hefur ekki eins góða hæðarlegu er að gera stíg frá Rafstöðvarveg uppá stíg við Streng, sem er ný endurgerður, og yfir gatnamót Höfðabakka/Bæjarháls/Strengs og áfram í austur í gegnum lóð Mjólkursamsölunnar niður á Dragháls og áfram meðfram Dragháls og Krókháls að Vínlandsleið.

Í Höfðahverfi vantar stofnstíg fyrir hjólandi sem gæti verið augljós merkt leið fyrir hjólandi umferð. Nú stendur til umbylting á hluta af þessu hverfi með breytingum á aðalskipulagi og deiliskipulagi og á að koma blönduð byggð í framtíðinni um a.m.k. vestasta hluta Höfðahverfis. Stofnstígur gæti legið meðfram Bíldshöfða og Stórhöfða í gegnum allt hverfið frá Elliðaánum að slaufunni við Suðurlandsveg. Þá virðist tiltölulega auðvelt að koma fyrir stíg meðfram Vesturlandsveginum sjálfum frá Breiðhöfða og austur úr að slaufunni við Suðurlandsveg sem lægi þá í undirgöngum norðan við Höfðabakkabrú.

Snjóruðningur á stígum

Mikilvægt er að stofnstígar séu ruddir snemma á morgnanna svo að hjólandi geti notað þá til samgangna á leið í vinnu. Samkvæmt því sem fram hefur komið var ófærð á stígum þennan morgun og var það að öllum líkindum lykilþáttur í leiðavali hjólreiðamannsins.

17. mars 2017
Fyrir hönd stjórnar Landssamtaka hjólreiðamanna,
Árni Davíðsson