Slys hjólreiðamanna skoðuð í samhengi

Í tilefni fréttar RÚV: "Fleiri karlar slasast á reiðhjólum" er vert að setja slys hjólreiðamanna í samhengi við önnur slys.

Í sjónvarpsfréttum RÚV 10. apríl var flutt frétt um niðurstöður rannsóknar á fjölda þeirra sem slasa sig á hjóli og leita til slysadeildar Landspítalans. Þar kom fram að rannsóknin var unnin þannig að leitað var í sjúkraskrá bráðasviðs Landspítalans að öllum sem komið höfðu þangað vegna reiðhjólaslysa á sex ára tímabili frá 2005 - 2010. Þá komu 3.426 vegna reiðhjólaslysa, 500 til 600 á hverju ári. Tæp 70 prósent (68,2%) þeirra voru karlar og rösklega 30 prósent konur (31.8%).

Þetta er sama rannsókn og var gerð af starfsmönnum rannsóknarnefndar umferðarslysa RNU og viðkomandi lækni og styrkt af Vegagerðinni og hefur verið greint frá niðurstöðum hennar á fyrri stigum á Umferðarþingi 2012 og á Rannsóknarráðstefna Vegagerðarinnar 2012. Markmið hennar var að finna út fjölda hjólreiðaslysa sem verða á Íslandi á ári auk ýmissa annarra atriða, s.s. alvarleika meiðsla, tegund slyss og mögulegar orsakir.

Flest slys á hjólandi eru einmenningsslys. Þessi einmenningsslys eru aðeins í undantekningartilvikum skráð af lögreglu þótt flest þeirra gerist á stíg eða götu og séu því skilgreind sem umferðarslys. Árekstur milli hjóls og bíls er líklega oftast skráð hjá lögreglu en árekstur hjólandi við gangandi eða aðra hjólandi er líklega sjaldan skráð.

Það hefur í raun lengi verið vitað að aðeins hluti slysa á hjólandi er skráður af lögreglu sem umferðarslys og komi fram í tölum Umferðarstofu um umferðarslys. Þannig er það í öllum löndum í kringum okkur. Því þarf að leita að upplýsingum í sjúkraskrám eða gera skoðanakannanir eða leita til hjólandi sem hafa lent í óhappi til að rannsaka þessi slys. Þess má geta að slys gangandi eru ekki umferðarslys nema ekið sé á gangandi af bíl eða öðru ökutæki. Þegar gangandi dettur þá er það ekki umferðarslys samkvæmt skilgreiningu.

Landssamtökin eru fylgjandi rannsóknum á slysum hjólandi og vilja vinna að því að draga úr slysum hjá þeim sem hjóla. Þegar niðurstöður rannsóknar eru birtar í skýrslu eða á ráðstefnu er framsetning vísindaleg og hlutlægni gætt og niðurstöður settar í samhengi og útskýrðar. Jafnframt er til vettvangur til að gera athugasemdir við niðurstöður og koma með ábendingar. Þegar fréttir af sömu niðurstöðum eru birtar þarf sömuleiðis að setja þær í samfélagslegt samhengi. Eins og fréttin stendur í fréttatíma má jafnvel halda því fram að hún gefi skakka mynd af hjólreiðum sem áhættusamri iðju. Því vilja Landssamtökin taka saman nokkra punkta til að setja þessar tölur í samhengi. Jafnframt sendi LHM tölvupóst á RÚV og ræddi við fréttamann og óskaði eftir að fá að koma sínum sjónarmiðum á framfæri á sama vettvangi og upphaflega fréttin.

Eins og gefur að skilja vinna Landssamtökin að aukningu hjólreiða enda sýnir það sig að eftir því sem fleiri hjóla verður hver og einn hjólandi öruggari í umferðinni. Hjólreiðum eins og annarri hreyfingu fylgja slys. Það er mikilvægt að ekki sé horft á þau slys úr samhengi við önnur slys í samfélaginu og í umferðinni. Ef birtar eru tölur fyrir einn hóp vegfarenda í umferðinni eða hóps sem stundar hreyfingu virka þær tölur mjög háar og sú iðja sérstaklega hættuleg en hún er kannski engu hættulegri en aðrir ferðamátar eða önnur hreyfing ef tölur um það væru birtar á sama tíma. Við hjá Landssamtökunum viljum halda því fram að hjólreiðar séu öruggari ferðamáti en ýmsir aðrir ferðamátar og hættuminni hreyfing en ýmis önnur hreyfing eða tómstundir. Við höfum líka gögn til að sýna fram á þetta. Þó er í mörgum tilvikum ekki til upplýsingar um slys í íþróttum og útivist og er það kannski verkefni fyrir áhugasama vísindamenn að skoða það.

Í þessu samhengi þarf að velta fyrir sér markmiði fréttarinnar. Eðlilegt væri að spyrja sig þegar svona frétt er flutt, hvernig á að koma í veg fyrir þessi slys. LHM hefur reynt með fjölbreyttri útgáfu að miðla fræðslu og leiðbeiningum til almennings um hvernig öruggast er að hjóla og hvernig best er að forðast slysin. Til dæmis má nefna; leiðbeiningar LHM um örugga umferð hjólandi, fræðslu um samgönguhjólreiðar, og fræðslu til bílstjóra um samvinnu við hjólandi.

Þetta efni var prentað í tveimur bæklingum í tengslum við almenningsíþróttakeppnina „Hjólað í vinnuna“ og voru gefnir út árin 2010 og 2011 í samtals 24 þús. eintökum, sem var m.a. dreift í öll bókasöfn, allar sundlaugar og allar heilsugæslustöðvar á landinu og til þátttakenda hjólað í vinnuna og allra meðlima Fjallahjólaklúbbsins, og auðvitað á RÚV.

Fjöldi þeirra sem hjóla hefur líka vaxið mikið frá árinu 2008. Um það bil 2-3 faldast án þess að slysatíðni virðist hafa vaxið í sama mæli. Mest er hjólað í Reykjavík þar sem byggð er þéttust.

Það má ekki gleyma því að hjólreiðar hafa heilsuávinning í för með sér sem er meiri en heilsutapið sem fylgja slysum. Jafnvel fyrir einstakling sem lendir í slysi, sem ekki hefur langtíma afleiðingar, er heilsuávinningurinn meiri þrátt fyrir slysið. WHO hefur m.a. sett upp reiknivél sem sýnir ávinningin fyrir samfélagið (heatwalkingcycling.org).

Aukin hreyfing fólks úr og í vinnu með virkum ferðamátum eins og hjólreiðum, göngu og með strætó getur líka bætt heilsufar og dregið úr fjarvistum.

Í sambandi við þessa rannsókn þarf að hafa í huga að hjólandi sem koma á slysadeild er mjög fjölbreyttur hópur, Í honum eru t.d. keppnishjólreiðamenn, bmx-arar sem leika listir á pöllum, fólk að hjóla úr og í vinnu, börn að leik o.s.frv. Í stuttu máli allir sem slasast á tæki sem er kallað reiðhjól þegar upplýsingar eru teknar niður á slysadeild. Sumt af þessari iðju er mun áhættusamara en annað og líklegt að iðkendur í t.d. íþróttum og jaðarsporti hljóti pústra og láti gera að þeim oftar en meðalmaðurinn.

Þá er sem fyrr segir hluti af þessum slysum skilgreind umferðarslys en önnur eru slys að leik eða uppfylla ekki skilgreininguna fyrir umferðarslys. Í því sambandi má velta fyrir sér hvernig samanburðurinn sé við aðra sem slasast í umferðinni? Til dæmis fjöldi slasaðra og alvarleiki áverka. Á netinu er með einföldum hætti hægt að skoða upplýsingar um þann fjölda sem slasast í umferðarslysum. Það er greinilegt að umferðarslys hjólandi er lítill hluti umferðarslysa. Þess má geta í því sambandi að áverkar í umferðarslyslum eru metnir af viðkomandi lögregluþjóni sem skrifar skýrslu en hann kannar í einhverjum tilvikum afdrif slasaðra á slysadeild og fær þá hugsanlega mat læknis á áverkum. Þetta er ákveðinn annmarki á mati á áverkum. Í umræddri rannsókn var stuðst við AIS mælikvarðan og matið í höndum fagmanns. Á 1. mynd má sjá tölur yfir fjölda látinn og alvarlega slasaðra árin 2006-2011 í umferðarslysum og er niðurstaðan sú sama, að hlutur hjólandi er frekar lítill þrátt fyrir að hjólreiðar úr og í vinnu hafi 2-3 faldast frá 2008 til 2011.

1MyndLlatnirSlasadir2006-2012Það væri eðlilegt að bera slys hjólandi saman við fjölda slasaðra í annarri hreyfingu. Til dæmis gangandi sem slasast við fall, börn að leik, iðkendur í handbolta, fótbolta, golfi og fleiri íþróttum. Það virðist ekki hafa verið gert en til eru erlendar rannsóknir og samantektir [1]http://injuryprevention.bmj.com/content/9/2/117.full þar sem menn hafa jafnvel áhyggjur af slysum í hreyfingu og íþróttum.

Það væri hægt að ræða um dánarmein en það væri ekki uppörvandi umræða fyrir aðra hópa en hjólreiðamenn. Það hefur ekki látist hjólreiðamaður í slysi frá árinu 1997 en á sama tíma hafa um 300 einstaklingar dáið í umferðarslysum á landinu. LHM hefur tekið saman tölur um látna á árabilinu 2001 til 2010 (2. mynd) og á árabilinu 1966 til 2006 (3. mynd), skv. tölum Umferðarstofu. Á 10 ára tímabili eftir aldamót létust 201 einstaklingar í umferðarslysum en engin af þeim var hjólreiðamaður. Á 40 ára tímabilinu létust 956 einstaklingar í umferðarslysum og voru 26 þeirra á hjólum eða 3%.

banaslys í umferðinni eftir vegfarendahópum árin 2001-2010

banaslys í umferðinni eftir vegfarendahópum árin 1966-2006

Þá má velta fyrir sér hvaða dánarmein eru algengust meðal íslendinga. Í Töflu 1. hafa verið tekin saman dánarmein íslendinga á 10 ára tímabili árin 2000 til 2009. Þessi tafla segir meira en mörg orð um það hvað líklegast sé að verði manni að aldurtila. Hjólreiðar eru þar ekki hátt á blaði. Þvert á móti geta hjólreiðar dregið úr eða frestað ótímabærum andlátum. Þær geta t.d. dregið úr líkum á alvarlegum umferðarslysum en það þarf líklega ekki að taka fram að nær allir þeir sem látast í umferðinni deyja í bíl eða við það að verða fyrir bíl. Það eru engin þekkt dæmi um það á Íslandi að hjólreiðamaður hafi valdið bana annars manns í umferðarslysi. Hjólreiðar geta og dregið úr líkum á ýmsum sjúkdómum eins og fram kemur hjá WHO eins og t.d. hjarta og æðasjúkdómum (7078 látnir árin 2000-09) og einhverjum krabbameinum t.d. krabbameini í ristli (457 látnir árin 2000-09). Hjólreiðar eins og önnur hreyfing er talin hafa góð áhrif á meðferð andlegra sjúkdóma. Í danskri rannsókn Andersen og félaga (2000)[2] (http://archinte.jamanetwork.com/article.aspx?articleid=485349) kom fram bætt lifun hjá þeim sem hjóla úr og í vinnu miðað við þá sem ferðuðust með öðrum hætti og munaði að meðaltali nokkrum lífárum. Þá er ótalið að hjólreiðar bæta ekki bara árum við lífið heldur líka lífi við árin, þ.e. þær bæta lífsgæði á efri árum.

samantekin dánarmein íslendinga árin 2000 til 2009

Frétt RÚV: http://www.ruv.is/frett/fleiri-karlar-slasast-a-reidhjolum
[1] Conn JM, Annest JL, Gilchrist J. Sports and recreation related injury episodes in the US population. Inj Prev 2003;9:117–23.
[2] Andersen LB, Schnohr P, Schroll M, Hein HO. All-cause mortality associated with physical activity during leisure time, work, sports, and cycling to work. Arch Intern Med, 2000 Jun 12;160(11):1621-8.

{jathumbnail off}