Í labbitúr með hjálm?

Pawel Bartoszek Ein rökin gegn lögfestingu skyldunotkunar á reiðhjólahjálmum hafa verið að hjólreiðar eru ekki hættulegri en til dæmis ganga, þannig að alveg eins mætti skylda gangandi vegfarendur til að klæðast höfuðhjálmum.

Af fenginni reynslu ber að varast að ota slíkum absúrdisma að, því einhver gæti tekið hugmyndinni fagnandi. Og viti menn: Í frumvarpi til umferðarlaga sem nú liggur fyrir þinginu er í fúlustu alvöru lagt til að ráðherra verði heimilt að setja reglugerð um hlífðar- og öryggisbúnað allra óvarinna vegfarenda. Með öðrum orðum er lagt til að ráðherra geti skyldað gangandi vegfarendur til að klæðast hjálmum, legghlífum og endurskinsvestum, með einfaldri reglugerð.


Þessi heimild hvílir á hæpnum forsendum. Frumorsök þess að gangandi og hjólandi vegfarendur slasast og deyja í umferðinni er að bílar keyra á þá. Frumorsökin er ekki það að þeir séu dökkklæddir, hjálmlausir og utan við sig. Samt er alltaf allt gert til að skella skuldinni á slys mjúkra vegfarenda á þá sjálfa og skylda þá til að dúða sig upp í skær hlífðarföt svo ökumenn sjái þá.

Þrátt fyrir það sem reynt hefur verið að hamra á er ábatinn af notkun reiðhjólahjálma takmarkaður. Nýsjálendingar innleiddu hjálmaskyldu á tíunda áratug seinustu aldar og þrátt fyrir að hjálmanotkun hafi farið úr engu í ekkert fækkaði slysum á hjólreiðamönnum óverulega, auk þess sem sama fækkun varð meðal annarra vegfarenda. Með öðrum orðum er ekki hægt að fullyrða að hjálmaskylda í Nýja-Sjálandi hafi fækkað slysum á hjólreiðafólki.

Á hinn bóginn fækkaði þeim sem hjóluðu. Á þeim áratug sem lögin tóku gildi fækkaði ferðalögum á reiðhjólum í Nýja-Sjálandi um fjórðung. Ekki er hægt að fullyrða með vissu að hjálmalögunum hafi þar einum verið um að kenna en ýmislegt styður þá tilgátu. Þau lönd í Evrópu þar sem flestir hjóla, Danmörk og Holland, eru þau lönd þar sem hvað fæstir nota hjálma. Þess má líka geta að þessi lönd eru þau öruggustu í heimi til að hjóla í. Nýsjálenskir hjólreiðamenn eru tvisvar til þrisvar sinnum líklegri til að slasast en þeir dönsku.

Margt bendir nefnilega til að besta öryggisaðgerð í þágu gangandi og hjólandi sé fjölgun þeirra.

Eftir því sem fleiri hjóla, aka færri, og þeir ökumenn eru þá vanari hjólum í umferðinni. Hjálmaskyldur og aðrar aðgerðir sem minna fólk á hætturnar við það að labba eða hjóla geta þannig dregið úr umferðaröryggi.

Hjálmar og vesti gera hjólreiðar óþægilegri. Ef menn þurfa að klæðast hallærislegum fötum og bera með sér egglaga frauðköggul hvert sem þeir fara minnkar það líkur á að venjulegt fólk fari að hjóla. Fólk í Kaupmannahöfn hjólar eins og það kemur út úr húsi. Þar má sjá málaðar skinkur og bankakarla á reiðhjólum. Ekki bara einhverja útlaga í spandexgöllum.

Stundum heyrist í þessari umræðu sú skoðun að það sé kannski allt í lagi að setja í lög ákvæði um hjálma og endurskinsmerki án refsingarákvæða. Undarleg hugsun. Menn setja ekki á sig bílbelti af ótta við sektina. Langflest fólk er löghlýðið. Langflest fólk mun því frekar velja að sleppa göngu- eða hjólatúrnum ef það er ekki með hjálm við höndina, fremur en að brjóta lög.

Síðan er það auðvitað svo að lög geta hafa áhrif á bótastöðu slasaðra.

Sé keyrt á gangandi vegfaranda á gangbraut er auðveldara að sanna að hann hafi ekki verið með endurskinsmerki heldur en að sanna að bílnum hafi verið ekið of hratt. Íþyngjandi reglugerðir um fatnað gangandi og hjólandi vegfarenda geta því haft áhrif á réttarstöðu þessa fólks, þegar það verður fyrir slysum.

Ef það eykur öryggistilfinningu fólks að nota hjálm eða vesti þá er það besta mál og ég hvet engan til að hætta því. Stjórnvöld eiga hins vegar að láta af löggjafartilburðum sem festa í sessi ímynd heilbrigðra samgöngumáta sem hættulegrar iðju, sérstaklega þar sem rannsóknir benda ekki til þess að hjálma- og endurskinsmerkjaskylda myndi fækka slysum á fólki. Hún mun hins vegar fækka þeim sem labba og hjóla. Það væri vont.

Aðsend grein í Fréttablaðinu 25 feb. 2011 og visir.is: http://visir.is/i-labbitur-med-hjalm-/article/2011110229404