Bætt aðgengi fyrir alla

Grein sem birtist í {japopup type="iframe" content=http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=350416 width="1000" height="600" }Morgunblaðinu 28. ágúst, 1997{/japopup}


Bætt aðgengi fyrir alla

Þó að pólitískur vilji virðist vera innan borgarinnar til að bæta aðgengi allra, segir Magnús Bergsson , nýtast endurbæturnar lítið þeim sem tekið hafa reiðhjólið fram yfir einkabílinn.

ÞAÐ er óhætt að segja að aðgengi fyrir óvélvædda umferð í Reykjavík hafi batnað ótrúlega mikið undanfarin misseri. Byggðar hafa verið brýr yfir miklar umferðaræðar, gangstéttafláar lækkaðir og sumar leiðir strætisvagna taka nú við reiðhjólum. Það er því óhætt að fagna því að með þessu hefur verið tekið fyrsta skrefið í annars langri göngu til að veita öllum jafnt aðgengi í samfélaginu. Þessar endurbætur fækka slysum, auka möguleika fatlaðra á að fara um Reykjavík án aðstoðar og gefur öllum tækifæri til þess að ferðast um með öðrum hætti en í einkabílum. Það er ánægjulegt að sjá að framsæknum borgarbúum, sem þeysast um borgina á reiðhjólum í ýmsum erindagjörðum, fjölgar. Með þeim hætti getur hinn almenni borgarbúi gefið sjálfum sér bestu kjarabót sem völ er á um leið og hann minnkar helstu aðfinnsluefni borgarbúa sem eru; hættuleg bílaumferð og mengun sem henni fylgir.

Þó að pólitískur vilji virðist vera innan borgarinnar til að bæta aðgengi allra og margt hafi breyst til batnaðar nýtast endurbæturnar lítið þeim sem tekið hafa reiðhjólið fram yfir einkabílinn. Ekki hefur enn sést nein raunveruleg hjólabraut í Reykjavík sem nýtist sem samgönguæð. Í öllum framkvæmdum er litið á reiðhjól sem afþreyingartæki sem athugasemdalaust á að taka sveig og beygjur framhjá bílamannvirkjum sem sífellt stækka í hrópandi mótsögn við vistvænt umhverfi. Má þar t.d. nefna að Grafarvogsbúar þurfa nú að taka á sig stóran og torfæran krók til að komast framhjá því risavaxna umferðamannvirki sem reist hefur verið á mótum Sæbrautar og Miklubrautar. Þar var rokið í framkvæmdir án tillits til annarrar umferðar en bílaumferðar. Þar má að hluta til leita skýringa í áhugaleysi þingmanna. Þeir hafa ekki komið hjólastígum inn í vegalög sem leiðir svo til þess að sveitarfélög halda að sér höndum og/eða fúska ýmsar framkvæmdir þar sem ekki virðist vera til nein heildaryfirsýn eða þekking á fyrirkomulagi hjólastíga. Enn vantar allar merkingar sem afmarka hjólaumferð frá bílaumferð annars vegar og gangandi vegfarendum hins vegar. Einnig er ansi hart að ekki hafa enn sést neinir stígar sem tengja Reykjavík við nágrannasveitarfélögin þó að í allar áttir liggi stórhættulegar akbrautir. Því leynast víða margar slysagildrur. Réttur gangandi vegfarenda og hjólreiðafólks er yfirleitt óljós eða villandi og oftast bílnum í hag. Þótt stígar beggja vegna Miklubrautar séu mikið notaðir, bæði af gangandi vegfarendum og hjólreiðamönnum, hefur aldrei þótt ástæða til að lagfæra slitlag þeirra. Þá hefur heldur ekki þótt ástæða til að aðgreina hjólabrautir og gangstíga. Ekki hefur heldur þótt ástæða til að merkja gangbrautir, t.d. á akreinum að og frá Kringlunni né heldur vara bílstjóra við hjólreiðamönnum eða gangandi vegfarendum með skiltum. Biðskyldulínur eru oft öfugum megin við gangbrautir í hægribeygjum við gatnamót svo að þegar bíll stöðvast á réttum stað stendur hann á miðri gangbraut.

Það hefur yfirleitt þótt nægja að benda gangandi vegfarendum á að víkja fyrir bifreiðum og hjólreiðafólki á að víkja fyrir allri umferð. Ef litið er á forgangsröðina í umferðinni í nágrannalöndunum ganga gangandi vegfarendur fyrir. Á eftir þeim kemur hjólreiðafólk og vélknúin ökutæki reka lestina. Á Íslandi er forgangsröðin óljós og hafa gárungarnir sagt að hér á landi sé fólk í einkabílum í fyrsta og öðru sæti, gangandi vegfarendur í því þriðja og hjólreiðafólk í því fjórða, þ.e.a.s. ef það hefur góðan lögfræðing.

Eins og sjá má eru verkefnin mörg og margvísleg og þurfa bæði ríki og sveitarfélög að taka sér tak í samgöngumálum og fara að samræma aðgengi allra. Það er því virkilegt fagnaðarefni þegar stórt sveitarfélag eins og Reykjavíkurborg hefur tekið fyrsta skrefið í rétta átt. Hver veit nema þingmenn verði nógu framsæknir og komi málefnum hjólreiðamanna í vegalög fyrir 21. öldina. Með því áframhaldi mun borgin geta tryggt gott aðgengi fyrir alla eftir aðeins nokkur kjörtímabil.

Í tilefni þessa ágæta byrjunarskrefs Reykjavíkurborgar ætla Blindrafélagið, Íslenski fjallahjólaklúbburinn, Íþróttafélag fatlaðra í Reykjavík og Sjálfsbjörg á höfuðborgarsvæðinu að afhenda Reykjavíkurborg viðurkenningu föstudaginn 28. ágúst við nýju göngubrúna yfir Miklubraut. Almenningur er hvattur til að sýna hug sinn til þess sem vel hefur verið gert og fjölmenna á staðinn.

Höfundur er formaður Íslenska fjallahjólakúbbsins.

Magnús Bergsson