Tilraun með hjólarein á Hverfisgötu lokið

Á HverfisgötuNú er lokið tilraun Reykjavíkurborgar með hjólarein upp Hverfisgötu í austurátt sem var hleypt af stokkunum í tengslum við menningarnótt og átti að standa út september(1). LHM kom að þessari framkvæmd með því að skoða hvort hönnun hjólareinarinnar og hjólavísana væri örugg fyrir hjólandi umferð. Þótt hönnun hafi verið vel undirbúin og eins vönduð og hægt var miðað við þá annmarka sem tilraunin setti henni var kynning til hagsmunaaðila greinilega ekki nógu góð og kom of seint. Þá var gerð mistök þegar reinin og hjólavísarnir voru kynntir sem hjólastígur(2). Það hefur hugsanlega valdið því að fólk misskildi að það ætti að hjóla í báðar akstursstefnur á hjólareininni og var þá kvartað yfir því að „stígurinn“ væri skuggamegin í götunni!

Það var margt jákvætt við þetta verkefni en einnig margt sem vakið hefur furðu meðal hjólreiðamanna. Þar ber hæst fréttaflutningur fjölmiðla (3,4,5,6,7) sem var mest einhliða og litaðist af þekkingarskorti. Það var oftast látið nægja að elta óánægjuraddir og sjaldan var leitað eftir sjónarmiðum þeirra sem voru hlynntir breytingunni eða hjóluðu eftir Hverfisgötunni. Fjölmiðlar þurfa að reyna að kynna sjónarmið allra aðila þegar fréttir eru fluttar. Þá þurfa fjölmiðlar að leita til kunnáttuaðila þegar fjallað er um hjólreiðar, eins og til dæmis Landssamtaka hjólreiðamanna.

Almennt séð virðist hjólreiðafólki og bílstjórum hafa líkað tilraunin vel. Okkar tilfinning hjá LHM er að mun fleiri hafi hjólað eftir Hverfisgötu eftir að tilraunin hófst heldur en áður. Þannig hafi tilraunin verið vel heppnuð, lífgað upp á borgina, vakið umræður og starfsmenn borgarinnar ættu að geta lært af þessarri reynslu.

  1. http://www.rvk.is/desktopdefault.aspx/tabid-259/1198_read-23148/1198_page-1/

  2. http://www.rvk.is/desktopdefault.aspx/tabid-259/1198_read-22567/1198_page-3/

  3. Morgunblaðið: http://www.mbl.is/mm/frettir/forsida/2010/08/18/hjolreidastigur_til_vansa/

  4. http://www.visir.is/article/2010764998602

  5. RÚV, Lára Ómarsdóttir: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4547109/2010/09/22/12

  6. RÚV, Lára Ómarsdóttir: http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4547110/2010/09/23/10

  7. Bylgjan Gissur Sigurðsson: http://bylgjan.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=58569

fyrir hönd

Stjórnar Landssamtaka hjólreiðamanna

Árni Davíðsson formaður

 


Fréttatilkynning frá Landssamtökum hjólreiðamanna send 4. október 2010

Á Hverfisgötu

Við Þjóðleikhúsið