Að byggja fyrir bíllausan lífsstíl - Magnús Jensson

Markmið Byggingarsamtakanna Miðgarðs er að fá reiti sem liggja miðsvæðis og vel við almennningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og byggja þar þétta, lágvaxna og vistvæna byggð þar sem aðrir samgöngumátar en bíllinn hafa forgang. Miðgarður stendur í viðræðum við Reykjavíkurborg um lóðavilyrði í Bryggjuhverfi vestur. Magnús Jensson arkitekt og formaður Miðgarðs mun kynna sýn samtakanna.

Sveitarfélögin á Höfuðborgarsvæðinu; lof og lausnir - Árni Davíðsson

Sveitarfélögin á Höfuðborgarsvæðinu; lof og lausnir

Undanfarin 10 ár má segja að það hafi verið lyft Grettistaki í aðstöðu fyrir hjólreiðar og aðra virka samgöngumáta á höfuðborgarsvæðinu. Þar sem áður voru engar leiðir milli sveitarfélaga og hverfa nema stofnbrautir er nú komið stígakerfi sem teygir sig frá Mosfellsbæ í norðri að Hafnarfirði í suðri og frá Seltjarnarnesi í vestri að Heiðmörk í austri. Það er samt enn verk fyrir höndum að klára stofnstígakerfið. Bættu stígakerfi fylgja líka önnur vandamál sem tengjast því að notkun þess hefur stóraukist og meiri kröfur eru nú gerðar til þess enn menn gátu ímyndað sér. Auknar kröfur eru nú gerðar um að stígakerfið og þjónusta við það sé til jafns við gatnakerfið og að hægt sé að nota það árið um kring án hindrana. Í erindinu verður reynt að stikla á stóru í hvar vel hefur tekist og hvar megi bæta úr.

 

Árni Davíðsson 

Árni er formaður Landssamtaka hjólreiðamanna. Hann hefur hjólað til samgangna frá árinu 1987 og starfað sem sjálfboðaliði að hjólreiðamálum frá árinu 2008. Árni var formaður Landssamtaka hjólreiðamanna á árunum 2010 til 2013 og aftur frá árinu 2018. Undir merkjum Landssamtaka hjólreiðamanna hefur Árni m.a. staðið að verkefni um öryggissskoðun hjólreiðastíga og talningu á reiðhjólum og hjólreiðastæðum við grunnskóla. Árni hefur jafnframt verið þátttakandi í starfi Hjólafærni á Íslandi og haldið fyrirlestra og námskeið í samgönguhjólreiðum, hjólaviðgerðum og séð um ástandsskoðun reiðhjóla undir merkjum "Dr. Bæk". Árni er M.s. líffræðingur að mennt og starfar sem heilbrigðisfulltrúi.

Samgönguspor - Daði Baldur Ottósson

Vinnustaðir spila mikilvægt hlutverk til að hvetja starfsmenn til að ferðast vistvænt til og frá vinnu. En hvernig fara vinnustaðir að því? Nú þegar hafa fjölmörg fyrirtæki og stofnanir innleitt samgöngustefnu og samgöngusamning. Hver eru áhrif þess að innleiða samgöngustefnu til að hvetja starfsmenn til að ferðast vistvænt, og hvað getum við gert betur en við gerum í dag.

Daði Baldur Ottósson, er samgönguverkfræðingur á EFLU verkfræðistofu.

Ferðast til framtíðar - Jón Gunnar Jónsson

Tilgangur Samgöngustofu er að stuðla að öruggum samgöngum.  Í erindinu er lögð áhersla á mikilvægi tillitssemi í umferðinni og öruggra aðstæðna fyrir alla vegfarendur.  Þá er einnig rætt mikilvægi þess að reglur séu skýrar og farið sé eftir þeim.  Farið er yfir verkefni Samgöngustofu til að sinna hlutverki sínu.

Frelsi, jafnrétti og bræðralag – Búum til borg - Guðbjörg Lilja Erlendsdóttir

Margt hefur áunnist á undanförnum árum í því að bæta aðstæður gangandi og hjólandi vegfarenda á Íslandi. Í erindinu verður fyrst og fremst horft fram á veginn en þó ekki án þess að líta aðeins í baksýnisspegilinn. Til þess að val um ferðamáta sé raunverulegt þurfa valkostirnir að vera raunhæfir. Baráttunni fyrir bættum aðstæðum til hjólreiða svipar um margt til jafnréttisbaráttu kynjanna. Það að jafna aðstöðumun mismunandi ferðamáta er ekki bara spurning jafnrétti og frelsi heldur er það einnig mikilvægur þáttur í að stuðla að bættri heilsu þjóðarinnar og leið til að að standa við skuldbindingar okkar í loftslagsmálum.

Hönnunarleiðbeiningarnar - LOKSINS!! - Ragnar Gauti Hauksson

Samtök Sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðin vinna að því að gefa út sameiginlegar hönnunarleiðbeiningar fyrir hjólreiðar. Þær byggja á fyrrum leiðbeiningar Reykjavíkurborgar og voru gefnar út sem drög í fyrra. Síðan þá hafa hönnuðir og hagsmunaaðilar skilað inn athugasemdum og búið er að taka tillit til þeirra. Einnig er búið að uppfæra leiðbeiningarnar út frá nýju umferðarlögunum sem voru samþykkt á alþingi í sumar. Vinnan við hönnunarleiðbeiningarnar er nú á lokametrunum og verða þær fljótlega gefnar út.

Geta rafmagnshjól breytt ferðavenjum - Kristinn Jón Eysteinsson

Geta rafmagnshjól breytt ferðavenjum – Tilraun með útlán á rafmagnshjólum hjá Reykjavíkurborg

Reykjavíkurborg hefur árið 2018 og 2019 staðið fyrir tilraunaverkefni með útláni á rafmagns reiðhjólum til almennings á tímabilinu maí – október. Tilgangur verkefnisins er að meta hversu mikil áhrif rafmagnsreiðhjól geta haft á ferðavenjur einstaklinga sem að jafnaði hafa notað einkabil sem sinn aðalferðamáta til og frá vinnu. Sagt er frá mjög áhugaverðum niðurstöðum verkefnisins 2018 sem byggir á könnunum þátttakenda í verkefninu. Kannanir sem voru framkvæmdar fyrir þátttöku, á meðan þátttöku stendur og nokkrum vikum eftir þátttöku.