Róbert Marshall þingmaður - þingsályktun um styrkingu hjólreiða á Íslandi

Róber Marshall þingmaður sem hjólar reglulega til vinnu sinnar hefur komist að þeirri niðurstöðu að ef allir hjóluðu væri veröldin betri. Hann hefur lagt fram tillögu að þingsályktun um styrkingu hjólreiða á Íslandi sem varð til m.a. eftir fund með fulltrúum frá Landssamtökum hjólreiðamanna og Hjólafærni á Íslandi. Hann hefur nú lagt þessa ályktun fram ásamt þingmönnum frá flestum ef ekki öllum þingflokkum. Enn er beðið svara frá einum stjórnmálaflokk.

Þetta er auðvitað bara viðbragð við þeirri þróun sem hefur átt sér stað, hjólreiðar eru ekki eingöngu samgöngumáti, þær eru umhverfismál og þær eru lýðheilsumál sagði hann á hjólaráðstefnunni Hjólum til framtíðar 2015. „Við þurfum að horfa á þetta heildstætt og við þurfum að taka á málunum eins og þetta sé alvöru samgöngumáti og það er hugmyndin á bak við þetta.“

Róbert Marshall þingmaður deildi einnig með okkur hugsunum sínum og nafna síns Róbert H. Haraldssonar sem skrifaði um heimspekilegan lærdóm sinn af því að hjóla í borg og sveit; Philosophical lessons on cycling in town and country. Þá prófaði hann á sjálfum sér að hjóla til vinnu og fyrstu 525 dagana sýndu skráningar hans að það voru fimm lygnir dagar fyrir hver sem var ekki gott verður. Það voru sjö auðveldir dagar fyrir hvern erfiðan og það var bara einu sinni stormur meðan hann hjólaði og þá var hann með vindinn í bakið.

Hér er upptaka af erindi Róberts á hjólaráðstefnunni og fyrir neðan má lesa þingsályktunina.


145. löggjafarþing 2015–2016.   Þingskjal 143 — 143. mál.

Tillaga til þingsályktunar um styrkingu hjólreiða á Íslandi.

Flm.: Róbert Marshall, Freyja Haraldsdóttir, Páll Valur Björnsson,
Heiða Kristín Helgadóttir, Brynhildur S. Björnsdóttir, Elín Hirst,
Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Birgitta Jónsdóttir,
Svandís Svavarsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir.

Alþingi ályktar að fela innanríkisráðherra, heilbrigðisráðherra og um­hverfis- og auðlindaráðherra auk mennta- og menningarmálaráðherra að skipa starfshóp sem kanni leiðir til að efla og styrkja um­hverfi hjólreiða og vinni hjólreiðaáætlun fyrir landið. Slík áætlun er hugsuð sem tæki til að marka skýra stefnu til framtíðar um uppbyggingu hjólreiðamannvirkja, eflingu hjólreiða í skólum og á vinnustöðum, hjólaferðamennsku, aðkomu sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka að uppbyggingu og eflingu hjólreiðamenningar. Innanríkisráðherra kynni niðurstöður starfshópsins fyrir Alþingi eigi síðar en 1. maí 2016.

Greinargerð.

Á undanförnum árum hefur orðið mikil vakning í hjólreiðamenningu hér á landi sem á sér samsvörun víða um heim þar sem reiðhjólið er orðið raunhæfur valkostur og á hverjum degi nýta fjölmargir reiðhjólið sem sitt sam­göngutæki. Á undanförnum árum hefur hlutur hjólreiða í sam­göngum farið vaxandi. Aukin notkun reiðhjóla til samgangna hefur jákvæð áhrif á lýðheilsu sem og jákvæð um­hverfisáhrif með því að draga úr umferðarþunga. Það er mikilvægt að stjórnvöld bregðist við og styrki þá jákvæðu þróun sem nú á sér stað.
Staða hjólreiða á Íslandi hefur ekki verið könnuð sérstaklega og segja má að skortur sé á mælingum og rannsóknum á hjólreiðum, sérstaklega á hjólreiðum til samgangna eins og fram kemur í ritgerðinni Mat á gæðum hjólaleiða: Greið­færni, öryggi og um­hverfi eftir Davíð Arnar Stefánsson (Háskóli Íslands 2013). Samkvæmt könnun Capacent Gallup frá 2011 fyrir ­sveitarfélögin á höfuð­borgar­svæðinu hjóluðu um 12,4% af íbúum svæðisins allt árið sem var aukning. 1
Það fer ekki framhjá neinum að hér á Íslandi hefur verið lögð áhersla á þarfir einkabílsins við gerð flestra sam­göngumannvirkja. Einkabíllinn hefur haft algeran forgang í borgarskipulaginu á kostnað annarra sam­göngumáta og langt umfram það sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Það er ljóst af aukinni notkun reiðhjóla til samgangna að ákveðin vitundarvakning á sér nú stað en einnig er ljóst að skipulaginu verður ekki breytt nema með vilja og aðkomu stjórnvalda og skipulagsyfirvalda. Í því tilliti þarf að marka skýra stefnu í þessum málum og gera viðeigandi breytingar á lögum þannig að kveðið verði á um uppbyggingu hjólreiða sem valkostar í sam­göngum.
Það er ljóst að æ fleiri nýta sér reiðhjólið enda eru það gömul sannindi og ný að reiðhjólið er besta farartækið sem hugsast getur í þéttbýli. Kostirnir eru fjölmargir, þægilegur ferðahraði, hættulítill, fallegur og spennandi ferðamáti sem er heilsueflandi og vænn fyrir um­hverfi og pyngju.
Hér er lagt til að unnin verði sérstök hjólreiðaáætlun þar sem afmörkuð verði skýr stefna stjórnvalda í þessum málum til framtíðar. Í slíkri áætlun er gert ráð fyrir að tekið verði á uppbyggingu hjólreiðamannvirkja. Sett verði stefna um eflingu hjólreiða sem sam­göngumáta í skólum og á vinnustöðum. Lagðar verði línur um hvernig best megi styrkja hjólreiðaferðamennsku. Loks er lögð áhersla á mikilvægi aðkomu sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka og ríkisstofnana sem málið varða og tryggt að samráð við slíka aðila verði á öllum stigum vinnunnar.

Neðanmálsgrein: 1
1 http://skemman.is/stream/get/1946/15336/37247/1/M%C3%A1GH_%C3%AD_prenntun.pdf