Reiðhjól í Reykjavík á grænu ljósi

Á hinni nýju hjólaleið frá Hlemmi að Elliðaám verða sérstök umferðarljós fyrir hjólreiðafólk á sex stöðum.  Í fyrramálið kl. 10:00, miðvikudaginn 27. febrúar, verða ljósin yfir Sæbraut við Súðarvog gangsett.  Á þeim stað hefur verið komið fyrir skynjurum sem kalla eftir þörfum á græna ljósið fyrir hjólreiðafólk sem er á leið þvert yfir Sæbrautina.   

Að frátöldum ljósunum við Sæbrautina eru umferðarljósin fyrir reiðhjólin á hinni nýju leið tímastillt.  Þau virka eins og önnur umferðarljós, en í útliti skera þau sig úr þar sem efst trónir hvítt reiðhjólamerki í bláu gleri og logar það stöðugt í þeim tilgangi að vekja athygli hjólreiðafólks.

Umferðarljósin verða eins og áður segir á sex stöðum og tengjast þau ljósastýringu umferðar í nágrenninu sem og miðlægri stýringu umferðarljósa og eftirlitskerfi.  Ljós við Engjaveg og Katrínartún eru þegar komin upp og hafa verið gangsett. Þá verða umferðarljós fyrir reiðhjól einnig sett upp þar sem hjólastígurinn nýi þverar Nóatún, Kringlumýrarbraut og Reykjaveg.

Uppruni: reykjavik.is

vogar_og_saebraut_mid

vogar_og_saebraut_2_mid

vogar_og_saebraut_3_mid