Göngugötum fjölgar í miðborginni

laugavegurBankastrætið verður ásamt hluta Laugavegar og Skólavörðustígs helgað gangandi og hjólandi vegfarendum frá hádegi í dag, 16.júlí, og um helgina vegna veðurblíðu. Laugavegurinn verður göngugata frá gatnamótum við Vatnsstíg og Skólavörðustígur frá Bergstaðastræti. Einstöku blíðviðri er spáð í höfuðborginni um helgina og vilja borgaryfirvöld og samtökin Miðborgin okkar gefa fólki aukið rými til að njóta þess.

 

Fyrr í mánuðinum var Austurstræti, Pósthússtræti og hluta Hafnarstrætis breytt í göngugötur og hefur það mælst vel fyrir hjá borgarbúum. „Fólk talar um að það myndist rólegri og þægilegri stemning og gott sé að vera laus við umferðarniðinn. Erlendir ferðamenn furða sig jafnan á því að akstur sé yfirhöfuð leyfður um þessar götur" segir Pálmi Freyr Randversson hjá Samgönguskrifstofu Reykjavíkur.

Að vanda verður nóg um að vera í miðborginni um helgina. Jafningjafræðslan stendur fyrir götuhátíð í dag kl.14 á Austurvelli og útitónleikar verða haldnir í Hljómskálagarðinum í kvöld. Útimarkaður verður á Hjartatorginu á Hljómalindarreit á laugardag og sama dag verða einnig tónleikar fyrir utan verslunina Útúrdúr í Austurstræti. Þá hafa liðsmenn Skyggni frábært skreytt miðbæinn með innsetningum sínum.

Ökumönnum er bent á að hægt er að leggja bílum í nærliggjandi bílastæðahúsum, t.d. í Kolaporti að Kalkofnsvegi 1, í kjallara Ráðhússins við Tjarnargötu og Traðarkoti við Hverfisgötu 20. Bílaumferð verður á ný hleypt um Bankastræti, Laugaveg og Skólavörðustíg mánudaginn 19. júlí.

Tenglar:

Frétt um götuhátíð Jafningjafræðslunnar

Miðborgin okkar - heimasíða

Skyggni frábært - heimasíða

Útúrdúr - heimasíða

 


Frétt af rvk.is: http://www.rvk.is/DesktopDefault.aspx/tabid-259/1198_read-22323/