Hjólum til framtíðar 2019 - Göngum‘etta.

Föstudaginn 20. september 2019 höldum við níundu ráðstefnu Hjólafærni og Landssamtaka hjólreiðamanna undir heitinu Hjólum til framtíðar.

Meginþema ráðstefnunnar í ár er Göngum‘etta. Þó það sé frábært að hjóla er ekkert sem jafnast á við að ganga til samgangna – en það hefur eiginlega alveg orðið út undan í hugsuninni um fjölbreyttar ferðavenjur.

Skráið ykkur hér: Skráning á Hjólum til framtíðar 2019. Formlegri skráningu líkur miðvikudaginn 18. september kl. 18.

Annar aðalfyrirlesari ráðstefnunnar verður Jim Walker frá Walk21 sem gekk um Ísland fyrir 35 árum og varð fyrir djúpum hughrifum og stofnaði í framhaldinu alþjóðlegu göngusamtökin Walk21. Samtökin Walk21 leggja áherslu á gott flæði fyrir gangandi vegfarendur í borgum heimsins. Jim Walker hefur lýst yfir sérlegu þakklæti með að fá tækifæri til að heimsækja Ísland og tala á ráðstefnunni – fyrir honum er það kærkomin leið til að þakka þá upplifun sem leiddi til stofnunar Walk21.

Hinn aðalfyrirlesari ráðstefnunnar verður Hans Voerknecht sem hefur um árabil leitt þróun lausna fyrir hjólandi vegfarendur í Hollandi með ráðgjöf og stefnumótun undir hatti Hollenska hjólasendiráðsins. Auk þess er hann vel að sér í raunverulegum kostnaði samfélagsins á því sem í daglegu tali kallast „frí bílastæði“ og talar fyrir eflingu hjóla og almenningssamgangna og nauðsyn þess að draga úr dekri við einkabílinn.

Fjölmörg innlend erindi eru einnig á dagskránni; Gengið til samgangna – stefnumótun – hjólandi verkfræðingur – hollenska hjólasendiráðið – hraði á stígum – lof og lausnir í hjólheimum – lán á rafmagnshjólum – örflæði – litið um öxl – hvað segir forsætisráðherra og Elsku pabbi ekki kaupa bíl!

Hjólavottun útskrifar nýja vinnustaði og Hjólaskálin verður afhent en hún er veitt þeim sem sannarlega hafa með einum og öðrum hætti, hlúð vel að hjólreiðum í sínu starfi og verið hvetjandi og öðrum góðum fyrirmynd í því að tileinka sér hjólreiðar í daglegum önnum.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpar ráðstefnuna kl. 13 og Diddú mun í lok dagsins syngja hið undurljúfa lag Hrekkjusvínanna „Ekki bíl“

Ráðstefnan verður send út í beinni útsendingu og verður hlekkur settur á Facebooksíðu Landssamtaka hjólreiðamanna.

Fyrir ráðstefnuna bjóða Hjólafærni og LHM uppá rólega hjólaferð fimmtudaginn 19. sept kl. 18 frá Garðatorgi. Ætlunin er að skoða aðstæður fyrir hjólreiðar í Garðabæ og endum svo á veitingastað IKEA kL. 19.30. Árni Davíðsson leiðir hjólaferðina. Viðburðurinn á Facebook

 

Hjólum til framtíðar 2019 – göngum‘etta

Hvar:
Sveinatungu, bæjarstjórnarsalurinn að Garðatorgi, Garðabæ kl. 10.
Safnast saman við Bakarameistarann Suðurveri kl. 8.45 og hjólað þaðan kl. 9 á ráðstefnuna.

Hvenær:
20. september 2019, klukkan 10 til 16

Skráning:
Smellið hér

Tengiliður:
Sesselja Traustadóttir, s. 864 2776 eða This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Útsending á netinu:
Ráðstefnan verður send út í beinni útsendingu hér í glugganum fyrir neðan og verður hlekkur líka settur á Facebooksíðu Landssamtaka hjólreiðamanna þegar þar að kemur.