Ályktun LHM um Umferðarráð

Fulltrúi LHM í Umferðarráði lagði fram ályktun LHM um Umferðarráð í tilefni af því að fyrirhugað var að leggja niður Umferðarráð og setja á stofn nýtt Fagráð samkvæmt 3. gr. laga nr. 119/2012 um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála.

Ályktunin var svo hljóðandi.


Landssamtök hjólreiðamanna, LHM; um gildi og framtíð Umferðarráðs.

* LHM styður þá hugmynd að til sé samráðsvettvangur um samgöngumál þar sem stofnanir og hagsmunaaðilar komi saman. Þar skapast vettvangur til mikilvægra skoðana- og upplýsingaskipta.  
* LHM telur rétt að fá hagsmunaaðila gangandi vegfarenda og notendur almenningsfarartækja að þessum samráðsvettvangi. Þessir vegfarendahópar eiga ekki fulltrúa í Umferðarráði í dag.
* LHM bendir á mikilvægi virkra samgangna gagnvart lýðheilsu.  Samgöngur ætti að skoða út frá lífvænu borgarumhverfi með ábyrgð gagnvart loftmengun, staðbundna og hnattræna, velferð fólks og huga vel að því að skapa ánægjulegt rými í þéttbýli til að vera manneskja. Máli okkar til stuðnings bendum við á  stefnur og skýrslur erlendra stofnanna sem benda á mikilvægi þess að stórefla virkan samgöngumáta.  (**)
* LHM telur rétt að stjórnvöld styrki verulega vægi virkra samgöngumáta og hafi vegna þessa gott  samstarf við hagsmunaaðila
 * LHM óskar eftir því að þeir sem að ráðinu koma, tileinki sér að tala um Virka vegfarendur, þegar talað er um gangandi, hjólandi og þá sem ferðast með almenningsfarartækjum. Vinsamlegast leggið af hugmyndina um óvarða vegfarendur.

Ef af áformum verður um að leggja ráðið niður, væri æskilegt:
a) að nefnd verði skipuð til að ræða hvernig megi í framtíðinni ná þeim markmiðum sem Umferðarráð var sett upp til að þjóna
b) að Umferðarrað verði látið starfa áfram uns nefndin hefur skilað áliti sínu.

Til innblásturs í umræðum um úrbætur mætti nefna :
* Fækka fjölda fulltrúa í ráðinu. T.d. mætti hafa einn sameiginlegan fulltrúa  lögreglu, sömuleiðis atvinnuvega tengd bílum.
* Hafa sameiginlega fundi með aðilum úr skipa- og flug-geiranum. Mögulega geta þessir geirar lært eitthvað hvor af öðrum.
 
* Að almenningur geti óskað eftir að mál séu rædd í Umferðarráði eða þann vettvangur sem tæki við af honum

* LHM telur rétt að til komi greiðsla fyrir fundarsetu hagsmunaaðila sem þurfa að sinna þessari vinnu í sjálfboðaliðastarfi og taka sér frí úr vinnu.  Ekki síst er þetta mikilvægt í þeim tilfellum sem er verið að gæta hagsmuna samgöngumáta eða hópa sem opinber stefna er um að efla, vegna fjölmargra kosti virkra samgöngumáta og  eflingar almenningssamgangna fyrir almannahag.

Reykjavík 13.desember 2012, fyrir hönd stjórnar
Árni Davíðsson, Morten Lange, Sesselja Traustadóttir

** Hér má nefna sem dæmi aðalskipulög borgarinnar, Íslenskar skýrslur um losun gróðurhúsalofttegunda, samgöngusamningar ráðuneyta og stofnanna, markmiðsgrein samgönguáætlunar og frumvarps til umferðarlaga,  skýrslur og verkefni OECD/ITF, WHO, DG Environment og FP7 (ESB), ICLEI, European Mobility Week.