Tollflokkun reiðhjóla og rafmagnshjóla

Á heimasíðu LHM birtist pistill árið 2014 um innflutning reiðhjóla á tímabilinu 1999 til 2013. Til stóð að taka saman nýjan pistil um innflutninginn árin 2014-2105 en við undirbúning kom í ljós að tollflokkun reiðhjóla og rafmagnshjóla hefur ekki verið breytt eins og LHM lagði til á sínum tíma.

LHM sendi inn tillögur um skýrari tollflokkun eftir pistilinn árið 2014 en það hefur greinilega ekki verið brugðist við því erindi hjá Tollayfirvöldum.

Tölur um innflutning byggir á tölfræði sem verður til við tollflokkun þessara farartækja. Vegna þess að tollflokkunin er óskýr er óljóst hversu mikið er flutt inn af rafmagnsreiðhjólum annarsvegar  og rafmagnsbifhjólum hinsvegar. Þessi óljósa tollflokkun getur líka leitt til þess að þessi tæki séu ekki sett í réttan tollflokk.

Núverandi tollflokkun

Tollflokkunin er núna svona í stórum dráttum fyrir þessi farartæki.

Undir tollflokk 8711 eru bifhjól, fyrst eru talin upp bifhjól með brunahreyfli en síðan koma:

Rafknúin vélhjól:
8711.9021 - - Lítil rafknúin ökutæki, sem hönnuð eru til aksturs á hraða upp í 25 km á klst. Undir þessa skilgreiningu fellur m.a. vélknúið hlaupahjól sem búið er stigbretti, er á hjólum og með stöng að framan sem á er stýri
8711.9029 - - Önnur        

Bifhjól, ót.a.:
8711.9031 — —  Lítil vélknúin ökutæki, þó ekki með stimpilbrunahreyfli, sem hönnuð eru til aksturs á hraða upp í 25 km á klst. Undir þessa skilgreiningu fellur m.a. vélknúið hlaupahjól sem búið er stigbretti, er á hjólum og með stöng að framan sem á er stýri
8711.9039 — — Önnur
8711.9090 — — Annað

Undir tollflokk 8712 eru reiðhjól:

8712.0000 -- Reiðhjól og önnur hjól (þar með talin þríhjól til vöruflutninga), án vélar

Eins og sést er tollflokkar 8711.9021 og 8711.9031 í raun með sömu skilgreiningu og alveg óskyrt hvað "önnur" eða "annað" merkir. Samkvæmt svari Tollstjóraembættisins við fyrirspurn LHM í tölvupósti flokkast bæði rafreiðhjól með fótstígum og rafbifhjól með hraðatakmörkum við 25 km/klst í tollflokkinn 8711.9021.

Það getur líka verið óskýrt í hvaða flokk hlaupahjól raðast. Hlaupahjól án vélar getur verið sett í flokk með reiðhjólum (8712.000) eða í flokk undir leikföng (9503.0012).

Hlaupahjól og hjólabretti með vél getur líka verið flokkað sem leikfang í tollflokk 9503.0015 (Vélknúin þríhjól, hlaupahjól og önnur hiðstæð leikföng) eða sem farartæki og getur þá farið í  tollflokk 8711.1001, ef það er með brunarhreyfli, eða í tollflokka 8711.9021 til 8711.9090 ef það er knúið rafmagnshreyfli.


LHM freistar þess að laga tollflokkunina

Landssamtök hjólreiðamanna vilja auðvitað að tollflokkunin sé eðlileg með hliðsjón af þeim tækjum sem eru í notkun hér á landi og að hægt sé að fá fram rétta tölfræði um innflutning mismunandi farartækja.  Rafreiðhjól eru reiðhjól í skilningi laga en bifhjól eru bifhjól í skilningi laga og geta gilt ólíkar reglur um þessi farartæki t.d. hvað varðar skattlagningu, skráningu og notkun. Það skiptir því miklu máli bæði fyrir stjórnvöld og okkur hjá Landssamtökunum að upplýsingar um þessi tæki séu réttar.

Af þessu tilefni hefur LHM haft samband við Fjármálaráðuneytið til að freista þess að breyta tollflokkuninni fyrir þessi vistvænu farartæki. Niðurstöður úr þeirrri málaleitan verða settar hér á vefinn í þessum pistli.


Tillaga að tollflokkun.

Fyrstu tillögur að nýrri tollflokkun er eftirfarandi:

8711 90 20 - Rafmagnsreiðhjól undanþegin gerðarviðurkenningu samkvæmt tilskipum EB nr. EB 2002/24/EC, það er reiðhjól með minni en 250W rafvél, þar sem knýja þarf fótstig til að fá afl og vélin dregur úr afla eftir því sem hraði eykst og hættir að gefa afl þegar hraðanum 25 km/klst er náð.

8711 90 30 - Rafknúin vélhjól með hámarkshraða 25 km/klst. (létt bifhjól í flokki I. skv. umferðarlögum)

8711 90 40 - Rafknúin hlaupahjól og hjólabretti með hjálparvél gerð fyrir aksturshraða => 8 km en < 15 km á klst.

8711 90 50 - Rafknúin vélhjól önnur, með hámarkshraða yfir 25 km/klst. (létt bifhjól í flokki II. skv. umferðarlögum)

87120000 - Reiðhjól. Undir þessa skilgreiningu falla öll reiðhjól án vélar sem búin eru fótstigi.

8712.XXXX - Hlaupahjól. Undir þessa skilgreiningu fellur hlaupahjól ætlað sem farartæki en ekki leikfang, án vélar, sem búið er stigbretti, er á hjólum og með stöng að framan sem á er stýri

 

Rafmagnsskutla eða rafmagnsvespa. Það er létt bifhjól í flokki I með hraðatakmörkun við 25 km/klst.