Hjólreiðabrautir í vegalög

Grein sem birtist í {japopup type="iframe" content="http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=768939" width="1000" height="600" }Morgunblaðinu 10. desember, 2003{/japopup}


Hjólreiðabrautir í vegalög

FRAM er komin þingsályktunartillaga um stofnbrautir fyrir hjólreiðar sem þingmenn allra flokka standa að.
Þar ályktar Alþingi að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd með fulltrúum samgönguráðuneytis, umhverfisráðuneytis, Vegagerðarinnar, Umferðarstofu, samtaka sveitarfélaga og samtaka hjólreiðafólks. Hlutverk nefndarinnar verður að undirbúa áætlun og lagabreytingar sem geri ráð fyrir hjólreiðum sem viðurkenndum og fullgildum kosti í samgöngumálum. Hjólreiðabrautir verði sérstaklega skilgreindar og þeim fundinn staður í vegalögum auk þess sem kveðið verði á um ábyrgð eða þátttöku ríkisvaldsins í gerð þeirra. Þannig verði komið upp sérstöku stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar sem ríkisvaldið sjái um eða taki þátt í að kosta í samstarfi við sveitarfélögin. Hjólreiðabrautakerfið skuli tengja saman þéttbýlisstaði og hjólreiðastíga einstakra sveitarfélaga við þjóðvegakerfið. Einnig skal gert ráð fyrir stofnbrautum gegnum þéttbýlisstaði með svipuðu fyrirkomulagi og gildir um þjóðvegi í þéttbýli. Samgönguráðherra leggi fyrir Alþingi frumvarp í samræmi við niðurstöður nefndarinnar eigi síðar en ári eftir samþykkt tillögunnar.

Hér má svo sannarlega fagna þessu framtaki Alþingis. Ef skipan þessarar nefndar leiðir til þess að hjólreiðabrautir komist í vegalög er það byltingarkennd samgöngubót, þá sérstaklega í þéttbýli. Á seinustu árum hafa verið reist geysimikil umferðarmannvirki á höfuðborgarsvæðinu fyrir milljarða króna sem því miður þjóna aðeins stórum vélknúnum ökutækjum. Það ófremdarástand sem nú ríkir á gangstéttum Reykjavíkur, sem og víðar, eru bæði sveitarfélögum og ríki til skammar. Mannvirki þessi hafa aðeins verið reist til að þjóna einkabílnum sem alla tíð hefur verið óvistvænasta og hættulegasta samgöngtæki sem völ er á, þá sérstaklega í þéttbýli. Því hafa þau ekki verið reist með hámarks arðsemi í huga. Þessi mannvirki útiloka möguleika fjölda borgarbúa á því að komast leiðar sinnar af sjálfsdáðum, hvort sem er fótgangandi eða hjólandi. Litið hefur verið á göngustíga sem kostnaðarsamt skraut í frágangsvinnu fremur en samgönguæðar. Vegalengdir göngustíga hafa því nær undantekningalaust lengst við það að þurfa að krækja fyrir víðáttumikil bifreiðamannvirki. Við hönnun gangstétta er ekki heldur tekið mið af þörfum hjólreiðamanna, hvað þá að þær séu hannaðar með skilvirkar samgöngur í huga. Hröð umferð hjólreiðamanna á ekki samleið með gangandi vegfarendum. Akvegir geta ekki tekið við léttum bifhjólum, s.s. rafmagnsreiðhjólum, og á gangstígum eru slík farartæki bönnuð. Hjólreiðabrautir geta tekið við léttum bifhjólum og rafmagnsreiðhjólum. Slík farartæki henta ákaflega vel skólafólki og gætu leyst bílastæðavanda umhverfis skóla.

Fáar, ef þá nokkrar, framkvæmdir eins og lagning hjólreiðabrauta eru jafn áhrifaríkar til að framfylgja Staðardagskrá 21, þá er vetnisvæðing og lestarvæðing í samgöngum ekki undanskilin. Talið er að 30% allra ferða í bílum séu styttri en þrír kílómetrar. Í þessu stuttu ferðum ganga vélar meira og minna kaldar sem þýðir margfalt meiri mengun en frá heitri vél. Bílaumferð fylgir ekki aðeins skaðleg loftmengun heldur líka hávaðamengun sem nú þegar er farin að skaða samfélagið með tilheyrandi kostnaði. Hver kannast ekki við verðfall íbúða eða óbyggileg svæði meðfram umferðargötum í þéttbýli. Á endanum má svo nefna sjónmengun og ekki síst slysahættu.

Það liggur því í augum uppi að ef fólk hefði kost á að nota annað en vélknúið ökutæki myndi það bæta umhverfi sitt og heilsu til mikilla muna. Hver hjólreiðamaður minnkar umferð á akbraut um eitt vélknúið ökutæki sem svo aftur gefur öðrum vélknúnum ökutækjum meira rými. Það aftur minnkar slit akvega og sparar byggingu á rándýrum mannvirkjum á landsvæði sem er ákaflega dýrmætt byggingarland undir íbúðarhúsnæði. Það eitt gæti svo sparað byggingu rándýrra og óvistvænna bílastæðahúsa. Hjólreiðabrautir gætu því aukið möguleika á því að þétta byggð.

Það er hreint út sagt ótrúlegt að þessi mikilvæga þingsályktunartillaga hafi ekki fyrir löngu komið fram því sparnaður samfélagsins er ótvíræður. Því er það þakkarvert að hún skuli koma fram nú. Gott kerfi hjólreiðabrauta er besti kosturinn sem stjórnvöld gætu valið til að bæta hag okkar í framtíðinni.

Fyrir alla þá sem vilja kynna sér þessi mál frekar er bent á vef Landssamtaka hjólreiðamanna: www.hjol.org

Magnús Bergsson skrifar um hag hjólreiðamanna

Höfundur er rafvirki.