Ánægjulegar samgönguhjólreiðar: Borgarrými og gildi fegurðarupplifunar

Umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar, Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands og Arkitektafélag Íslands stóðu fyrir opnum fyrirlestri Dr. Hörpu Stefánsdóttur 23. janúar 2015. Fyrirlesturinn byggði á doktorsritgerð Hörpu sem nefnist á ensku “Pleasureable cycling to work -Urban spaces and the aesthetic experiences of commuting cyclists.”  Harpa varði doktorsritgerðina 24. október 2014 við Norges miljø- og biovitenskapelige universitet (NMBU).

Upptöku af fyrirlestrinum má sjá hér að neðan.

Í rannsóknum sínum hefur Harpa skoðað hvernig eiginleikar í borgarrýmum hafa áhrif á upplifun fólks sem hjólar í samgönguskyni og tengja má við gildi fegurðar. Eiginleikar þessir voru greindir og kannað hvernig gildi fegurðar hafði áhrif á gæðamat fólks á hjólaleiðum sínum. Samanburðar-rannsóknir voru unnar í þremur meðalstórum norrænum borgum; Reykjavík, Þrándheimi og Óðinsvéum. Aðferðirnar sem notaðar voru gáfu nýja innsýn inn í hvernig meta má upplifun hjólreiðarfólks og fegurðarupplifun í borgarrýmum.  Niðurstöðurnar benda til þess að fegurð umhverfis á hjólaleiðum sé mjög mikilvægt, en samtvinnað virkni. Fegurðareiginleikar hafa aðallega gildi í nálægð og þegar viðunandi marki um virkni er náð.  Gróðursælt umhverfi og nálægð við náttúru hafði oftast hátt gildi á meðan yfirþyrmandi bílmiðað umhverfi stuðlaði að neikvæðri upplifun.

Lítið hefur verið fjallað um fegurðarupplifun hjólreiðarfólks í skrifum og akademískum rannsóknum tengt borgarhönnun.  Segja má að skoðun á borginni út frá sjónarhorni hjólreiða sé annað sjónarhorn til að skoða og skilja borgir en frá t.d. sjónarhorni gangandi, akandi eða út frá teikningu eða korti. Þekking á upplifun hjólreiðarfólks veitir innsýn inn í hvernig móta megi borgarlandslag og borgarrými með samgönguhjólreiðar sem lífsgæði að leiðarljósi. Á sama tíma er horft í auknum mæli til þess að hjólreiðavænt umhverfi sé meira aðlaðandi en bílmiðað.

Doktorsritgerðin er byggð á þremur greinum sem birtar hafa verið í  alþjóðlegum ritrýndum tímaritum.  Ritgerðina í heild sinni má m.a. skoða í Þjóðarbókhlöðunni.

Greinarnar má nálgast hér:

Stefansdottir, H. (2014). A Theoretical Perspective on How Bicycle Commuters Might Experience Aesthetic Features of Urban Space. Journal of Urban Design, 19(4), 496-510.  http://www.tandfonline.com/doi/abs/10.1080/13574809.2014.923746

Stefánsdóttir, H. (2014). Features of urban spaces and commuting bicyclists’ aesthetic experience.  Nordic Journal of Architectural Research, No. 1 (2014), Vol. 26 http://arkitekturforskning.net/na/article/view/479

Stefansdottir, H. (2014). Urban routes and commuting bicyclist’s aesthetic experience. FORMakademisk, 7(2).   https://journals.hioa.no/index.php/formakademisk/article/view/777

 

Harpa útskrifaðist frá Arkitekt- og designhøgskolen i Oslo (AHO) árið 1993 og starfaði sem arkitekt í Reykjavík þar til hún réð sig sem styrkþega í skipulagsfræðum haustið 2010 við Institutt for Landskapsplanlegging við NMBU.  Frá 2012 hefur hún einnig verið meðlimur í rannsóknarhópnum um sjálfbæra þróun í skipulagi borga á sömu deild.  Hún starfar áfram við rannsóknir á þessu sviði við sama háskóla. Nánari upplýsingar um Hörpu og þau verkefni sem hún vinnur að má nálgast hér https://www.nmbu.no/ans/harpa.stefansdottir

 

Fyrirlesturinn fór fram í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur.
Magnús Bergsson tók upp hljóð og Páll Guðjónsson klippti saman.