Hjólað í vinnuna hefst miðvikudaginn 6. maí

brochure_icon_sm.jpgFrá árinu 2003 hefur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands ásamt ýmsum samstarfsaðilum s.s. Landssamtökum hjólreiðamanna staðið myndarlega að því að efla hreyfingu og starfsanda á vinnustöðum með heilsu- og hvatningarátakinu “Hjólað í vinnuna”. Megin markmið átaksins er að vekja athygli á hjólreiðum sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta.
Starfsmenn vinnustaða hér á landi hafa tekið vel við sér því þátttakan hefur margfaldast þau sex ár sem verkefnið hefur farið fram (hér í töflunni fyrir neðan má sjá samanburð á milli ára). Í upphafi stóð átakið yfir í eina viku, næstu þrjú ár í tvær vikur og á síðast ári var það í þrjár vikur. Hjólað í vinnuna mun fara fram dagana 6. – 26. maí 2009.  Vefur Hjólað í vinnuna

Það er einlæg von þeirra sem standa að Hjólað í vinnuna að verkefnið ýti við sem flestum af stað í reglulega hreyfingu og hvetji fólk til að taka upp heilsusamlegri og umverfisvænni ferðamáta. Til þess að fyrirbyggja misskilning höfum við sett fram þessar reglur.

Hverjir eru gjaldgengir þátttakendur?
Allir geta tekið þátt í Hjólað í vinnuna svo framarlega sem þeir nýta eigin orku til að koma sér til og frá vinnu þ.e. hjóla, skokka, ganga, nota línuskauta o.s.frv. Þeir sem nýta almenningssamgöngur geta einnig tekið þátt en þá er skráð sú vegalengd sem gengin eða hjóluð er til og frá stoppistöð.

Eftirfarandi regla er sett inn til að koma á móts við einstaklinga sem búa í öðru sveitarfélagi en þeir starfa og hafa ekki aðgang að almenningssamgöngum. Þeir geta notast við einkabíl hluta af leiðinni en þá þurfa þeir einstaklingar að ganga minnst 1,5 km (~15 mín) eða hjóli minnst 3 km (~15 mín) hvora leið og uppfylli þannig ráðleggingar Lýðheilsustöðvar um daglega hreyfingu. 

Hvað má skrá? 
Gjaldgengir þátttakendur (sjá skilgreiningu að ofan) mega skrá eftirfarandi ferðir:
• í og úr vinnu
• allar vinnutengdar ferðir á vinnutíma þ.e. á fundi og sendiferðir sem annars hefðu verið farnar á bíl.

Hvað má ekki skrá?
Meginmarkmið Hjólað í vinna er að hafa áhrif á ferðavenjur fólks. Þó svo að eftirfarandi leiðir séu frábærar til hreyfingar í daglegu lífi samræmast þær ekki meginmarkmiði verkefnisins. Því má ekki skrá:
• heilsubótarhreyfingu í hádeginu, göngu eða hjólreiðatúr
• ef farið er út að hjóla eftir að heim er komið úr vinnu.
• ef starfsmenn nota hjól eða göngu til að koma sér á milli staða innan vinnustaðar.

Framlag hvers og eins telur.
Í anda almenningsíþrótta er leikurinn byggður upp þannig að framlag hvers og eins hjálpar til, hversu lítið sem það er - Allt er betra en ekkert.

Vefur Hjólað í vinnuna