Arna Sigríður hjólar hálfmaraþon

Ísfirðingurinn Arna Sigríður Albertsdóttir tekur þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á laugardag á handahjólinu sínu og ætlar að hjóla hálfmaraþon eða 21 kílómetra. Hún segir maraþonið leggjast afar vel í sig en hún tekur þátt til styrktar Grensásdeild Landspítalans, þar sem hún var í endurhæfingu í rúmlega hálft ár eftir að hún lamaðist í skíðaslysi 30. desember 2006. Að sögn Örnu Sigríðar hjálpaði starfið og starfsfólkið á Grensás henni ótrúlega mikið á sínum tíma og er hún þeim ævinlega þakklát. Aðspurð segist hún ekki vita til þess að fleiri muni hjóla í maraþoninu. „Ég held líka að handahjólið mitt sé eina sinnar tegundar á landinu í dag og finnst þetta því frábært tækifæri til að vekja athygli á því.“

Á þriðja tug Ísfirðinga eru skráðir í maraþonið og margir hverjir hlaupa til styrktar góðu málefni. Sem dæmi má nefna að Martha Ernstsdóttir hleypur einnig hálfmaraþon til styrktar íslenskum samtökum í Afríku ríkinu Togo sem heita: Sól í Tógo en þau eru að safna fyrir barnaheimili í Togo. „Mig langar til að leggja mitt af mörkum og þetta er mjög gott málefni,“ segir Martha. Halldóra Karlsdóttir hleyptur til styrktar meðferðarheimilinu í Krýsuvík. Hún segist vilja leggja sitt af mörkum til að efla það góða starf sem unnið er á Krýsuvík til að hjálpa ungu fólki að öðlast von um eðlilegt líf án fíkniefna.


Áhugasömum er bent á að hægt er að heita á Ísfirðinga, og aðra sem hlaupa fyrir góð málefni í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka, upphæð að eigin vali í gegnum vefinn hlaupastyrkur.is. Þannig er hægt að hvetja hlauparana til dáða og láta jafnframt gott af sér leiða.

Frétt af bb.is http://www.bb.is/?PageID=26&NewsID=167707