Er eiginlega varadekk

101215frettabladid-kari-svan-rafnsson---Einhjól eru ekki algeng sjón í umferðinni, en glöggir vegfarendur hafa þó tekið eftir ungum manni á slíku farartæki í miðbænum undanfarna mánuði. Hann heitir Kári Svan Rafnsson, er húsprestur í Höfða og segist ekki muna hvernig áhugi hans á einhjólinu hafi vaknað. "Ég sá þetta hjól í Skeifunni fyrir sirka fjórum árum og hreifst svo af því að ég keypti það enda var það frekar ódýrt, kostaði ekki nema tólf þúsund krónur," segir Kári. "Þessi hjól fást hérna í hjólabúðum en það eru oft frekar lélegar útgáfur. Ég er búinn að láta uppfæra mitt hjól þannig að ég er í góðum málum með það."
Kári viðurkennir að einhjólin séu ekki hentug í vetrarfærð, en segir þau mjög góðan kost á sumrin. "Mitt hjól er svokallað borgareinhjól, en það eru til ótal gerðir af þessum hjólum; listaeinhjól eins og þú sérð í sirkusum og danssýningum, fjallaeinhjól og ég veit ekki hvað."

En er ekkert erfitt að komast leiðar sinnar á einhjólinu? "Þetta er auðveldara en að ganga og maður fer hraðar yfir, er svona á skokkhraða. Það er erfitt í fyrstu að halda jafnvæginu, en það kemur fljótt. En ég verð nú samt að viðurkenna að þetta er eiginlega svona varadekk; ég nota einhjólið aðallega þegar tvíhjólið klikkar."

Enginn formlegur félagsskapur einhjólaeigenda er til á landinu, en Kári segist þó hafa eignast vini út á það eitt að eiga slíkt hjól. "Ég var einu sinni á einhjólinu úti á götu, á gangstéttinni auðvitað, og á gangstéttinni hinu megin var annar náungi á einhjóli. Við hrópuðum báðir: HEY!, snarstoppuðum og heilsuðumst og erum nú orðnir ágætis félagar."

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Birtist í Fréttablaðinu 15. des. 2010