Láttu borgina vita um það sem þarf að laga

jhj_034-800Borgarstjóri opnaði formlega nýtt ábendingakerfi á vef Reykjavíkurborgar 22. febrúar. Þar er tekið á móti upplýsingum um það í borgarlandinu sem þarf að laga. Borgarbúar eru hvattir til að láta vita um skröltandi brunnlok, sködduð umferðarmerki, lausar hellur, yfirfulla ruslastampa, skemmda bekki, óvirka götulýsingu og annað sem tengist þjónustu í borgarlandinu.

„Það er mikilvægur hluti af gangverki borgarlífsins að ábendingar borgarbúa komist skýrt og skilmerkilega rétta leið og að vel sé haldið utan um þær“ sagði Jón Gnarr borgarstjóri þegar hann opnaði ábendingavefinn í dag við athöfn sem haldin var í Þjónustumiðstöð Framkvæmda- og eignasviðs.

Nýi ábendingavefurinn á að auðvelda úrvinnslu ábendinga sem berast. Kerfið hefur verið í þróun um skeið og hefur síma- og þjónustuver Reykjavíkurborgar prufukeyrt það að undanförnu og sett ábendingar borgarbúa sem hafa borist símleiðis í ábendingakerfið með góðum árangri. Ábendingavefurinn opnar borgarbúum nýja boðleið, en auðvitað verður áfram hægt að hringja inn ábendingar. Símaverið verður einnig til þjónustu reiðubúið að leiðbeina íbúum þegar þeir nota vefinn í fyrstu skiptin.

Ábendingakerfið er á vef Reykjavíkurborgar undir vefslóðinni www.reykjavik.is/borgarlandid

Einfaldleiki var hafður að leiðarljósi við hönnun kerfisins og geta borgarbúar sett upplýsingar um ýmislegt sem þeim finnst að megi laga með skjótum og einföldum hætti. Þeir sem vilja vera nákvæmir geta staðsett ábendingu sína á korti.  Á kortinu er einnig hægt að kalla fram ýmsar upplýsingar eins og staðsetningu ljósastaura, ruslastampa, bekkja og fleiri götugagna. Einnig er hægt að skoða afmörkun umráðasvæða s.s. lóðamörk, en íbúar geta haft þau til viðmiðunar hvort ábendingin tilheyri borgarlandi eða sé innan lóðar íbúa eða fyrirtækja.

„Við viljum veita góða þjónustu og ábendingavefurinn er hluti af henni.  Auðvitað koma upp tilvik sem við getum ekki sinnt eða eru ekki í okkar verkahring og þá reynum við að koma þeirri ábendingu til réttra aðila,“ segir Sighvatur Arnarsson sem leitt hefur vinnuna við þróun kerfisins.  Hann segir að sjálfsögðu verði að setja þann fyrirvara að ekki sé hægt að sinna öllum ábendingum en starfsmenn muni leggja sig fram um að bregðast skjótt og vel við.  Sighvatur hvetur borgarbúa til að sýna frumkvæði.  „Stundum er það fljótlegra fyrir okkur að henda ruslinu sjálf í tunnuna en að senda inn ábendingu,“ segir hann.  Ábendingavefurinn á ekki að taka frumkvæði og framkvæmdagleði frá íbúanum.

Myndatexti:
Ánægðir með ábendingavefinn: Sighvatur Arnarsson, Jón Gnarr og Hrólfur Jónsson

Uppruni: http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-757/521_read-30393/

jhj_023-800

abendingvefur2