Styrkja starfsfólk til að skilja bílinn eftir heima

mbl-111212b
  • Æ algengara að fyrirtæki geri samgöngusamninga við starfsfólk sitt Starfsfólkið skuldbindur sig til að hvíla einkabílinn og þess í stað hjóla, ganga eða taka strætó
  • Fær í staðinn mánaðarlegar greiðslur frá launagreiðandaMörg fyrirtæki átta sig á ávinningi þess að sem flestir gangi, hjóli eða taki strætó í vinnuna og hafa komið upp búningsklefum og sturtum.
  • Mörg fyrirtæki átta sig á ávinningi þess að sem flestir gangi, hjóli eða taki strætó í vinnuna og hafa komið upp búningsklefum og sturtum.

Færst hefur í aukana að fyrirtæki geri samgöngusamninga við starfsfólk sitt og veiti því þá svokallaða samgöngustyrki. Þá skuldbinda starfsmennirnir sig til að hvíla einkabílinn og hjóla, ganga eða taka strætó í vinnuna í ákveðið mörg skipti í viku. »Ríkisskattstjóri hefur heimilað að maður megi njóta greiðslu frá launagreiðanda upp á fimm þúsund krónur á mánuði, eða 60 þúsund krónur á ári, án þess að það sé greiddur skattur af henni, til að mæta kostnaðinum af því að kaupa strætómiða, nagladekk á hjólin eða hvað sem þú þarft að gera til að komast í vinnuna,« segir Sesselja Traustadóttir, verkefnisstjóri hjá Hjólafærni og stjórnarmaður hjá Landssamtökum hjólreiðamanna.

 

Samfélagslegur og umhverfislegur ávinningur

Hún segir Reykjavíkurborg hafa riðið á vaðið með samgöngusamningana á samgönguviku fyrir þremur árum. Skömmu síðar hafi verkfræðistofan Mannvit tekið upp á því að bjóða starfsmönnum sínum samgöngustyrki, sem samsvari kostnaði við mánaðarkort í strætó, og í kjölfarið fylgdu Matís, Landsbankinn, Iceland Express, Vegagerðin o.fl. „Þegar Mannvit flutti starfsemi sína á Grensásveg sáu þeir hve bílastæði voru dýr og hugsuðu sem svo að það væri hægt að hvetja starfsmenn til að koma öðruvísi en á einkabílum. Það væri bæði samfélagslegur og umhverfislegur ávinningur af því að hafa færri bíla í umferðinni,“ segir Sesselja. „Að auki myndi starfsfólkið hreyfa sig meira og þ.a.l. verða hraustara.“

 

Starfsmenn hvattir með áþreifanlegum hætti

Sesselja segir algengt að fyrirtæki marki sér samgöngustefnu en færri bjóði starfsfólki sínu samgöngustyrki. „Það er voðalega gott að finna á eigin skinni að það skipti máli umhverfisins vegna hvað þú gerir og að þú fáir smávegis greitt fyrir það. Þarna er verið að taka skref í öfuga átt við það sem við erum alin upp við á Íslandi,“ segir hún og nefnir t.d. að það sé ódýrast og þægilegast að henda óflokkuðu rusli og í raun sé fólk verðlaunað fyrir að vera umhverfissóðar.

„Þarna eru hinsvegar fyrirtæki að hvetja starfsmenn sína með áþreifanlegum hætti og segjast stolt af því að fá að borga þeim smá pening gegn því að þeir mæti ekki á bíl í vinnuna. Fyrirtækið vilji starfa á umhverfisvænan hátt og sé þakklátt fyrir að starfsmaðurinn komi fyrir eigin orku eða með strætó í vinnuna,“ segir hún. „Þar að auki verða þá fleiri stæði fyrir framan húsið fyrir viðskiptavinina,“ bætir Sesselja við.

Hún hvetur stjórnendur til að fá leiðbeiningar um hvað þeir geti gert til að koma á samgöngusamningum í fyrirtækjunum sínum. »Oft er þetta ótrúlega einföld ákvörðun og ofboðslega lítið sem þarf að gera.« Hún segir mörg fyrirtæki vera að átta sig á ávinningi þess að sem flestir gangi, hjóli eða taki strætó í vinnuna og þau sem ekki hafi þegar boðið upp á aðstöðuna hafi komið upp búningsklefum og sturtum fyrir garpana.

 

Góð hvatning fyrir aukna hreyfingu

Sveinbjörn Sveinbjörnsson starfar hjá hjá Mannviti og fær þar mánaðarlega greiddan samgöngustyrk. „Ég hjóla eða geng í vinnuna en ég á heima stutt frá. Ég er innan við 5 mínútur að hjóla og það tekur skemmri tíma en að keyra,“ segir Sveinbjörn. Hann er með nagladekk og rafmagnsmótor á hjólinu sínu og segist því geta hjólað hvert sem er. „Það skiptir ekki málið hvernig færðin er, maður klæðir sig bara eftir veðri og fer út.“

Sveinbjörn segist afar ánægður með samgöngustyrkinn. „Þetta er ekki spurning í mínum huga, að fá smá greitt fyrir að hjóla eða ganga í vinnuna auk þess sem það er svo miklu ódýrara að þurfa bara að vera á einum bíl.“ Hann segir töluvert marga samstarfsmenn sína fá samgöngustyrk á sumrin en þeim fækki á veturna. Styrkurinn nemur andvirði mánaðarkorts í strætó og er hægt að nýta hann í einmitt það eða til að viðhalda hjólinu.

Til að fá styrkinn skuldbindur fólk sig til að koma til vinnu öðruvísi en á einkabíl fjórum sinnum í viku og segir Sveinbjörn að ekki sé fylgst með að starfsmenn standi við það heldur sé því treyst fullkomlega. „Mannvit er að reyna að vera eins umhverfisvænt og hægt er og þetta er eitt skref í því ferli. Þá þarf líka færri bílastæði fyrir starfsfólk, þannig að samgöngustyrkir eru ekkert nema til góðs fyrir fyrirtæki. Styrkirnir eru líka góð hvatning fyrir starfsfólkið til að hreyfa sig meira, hvort sem það gengur eða hjólar. Mannvit myndi eflaust vilja að fleiri nýttu sér styrkinn,“ segir Sveinbjörn að lokum.

Samningar við 200 starfsmenn

Tæplega 200 starfsmenn Landsbankans hafa undirritað samgöngusamning bankans frá því hann var samþykktur í júní sl. Í frétt frá bankanum kemur fram að þeir starfsmenn sem undirrita samninginn skuldbinda sig til að ferðast með strætó eða hjólandi til og frá vinnu og í vinnutengdum erindum ef möguleiki er á.

Á móti greiðir bankinn útlagðan kostnað, að hámarki 40.000 kr. á ári, auk þess að greiða leigubílakostnað í neyðartilvikum.

Ennfremur býðst öllu fastráðnu starfsfólki 20.000 króna endurgreiðsla af árskorti í strætó. Í bankanum starfa nú um 1.250 manns og þar af starfa um 850 starfsmenn í höfuðstöðvum bankans í miðborg Reykjavíkur.


Uppruni Morgunblaðið 12. desember 2011 - Ylfa Kristín K. Árnadóttir