Ný lög munu lækka verð reiðhjóla

Verð á hjólum mun lækka nokkuð nái tillögur efnahags- og viðskiptanefndar um afnám tolla á reiðhjól fram að ganga. Þetta segir Guðmundur Ágúst Pétursson, forstjóri GÁP, í samtali við mbl.is, en hann sér fyrir sér áframhaldandi aukningu í hjólaáhuga landsmanna með þessu skrefi.„Mér hefur aldrei litist jafn vel á neina breytingu eins og það að byrjað sé að fella niður vörugjöld því þau eiga ekki rétt á sér lengur,“ segir Guðmundur. Hann vonar að tillagan komist fljótt í gegn, en snemma á komandi ári munu fyrstu sendingar vorsins berast og til að tollurinn bætist ekki á þær þarf Alþingi að samþykkja nýju lögin.

Guðmundur segir að þetta muni leiða til lægra vöruverðs, sérstaklega þar sem vörugjöldin hafi margfeldisáhrif á verðið. Í dag er þetta gjald 10% og því um ágæta lækkun fyrir kaupendur að ræða.

Flestir innflutningsaðilar eiga töluvert magn hjóla á lager og þeir munu þá þurfa að afskrifa vörugjaldið af þeim hjólum þegar nýju lögin taka gildi. Guðmundur segir þetta alltaf vera fylgifisk lækkana og því verði bara að taka. „Þegar svona lækkanir eiga sér stað verða menn að bregðast strax við til að verða ekki undir í samkeppninni,“ segir hann og bætir við: „það er ekki hægt að bjóða dýrari hjól þegar þú getur fengið þau ódýrari annarsstaðar.“

Uppruni: http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2012/12/20/ny_log_munu_laekka_verd_reidhjola/

 

Hámark á tollfrjálsum varningi hækkað

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis leggur til í nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vörugjald og tollalögum að hámark á tollfrelsi varnings sem ferðamenn flytja til landsins hækki úr 65.000 kr. í 88.000 kr. og að hámark á verðmæti einstaks hlutar verði afnumið. Þá er lagt til að tollur á reiðhjól verði felldur niður.

Hvað fyrri breytingatillöguna varðar er á það bent í nefndarálitinu að fjárhæðarviðmiðuninni hafi ekki verið breytt síðan hún var lögfest í lok árs 2008. „Með hliðsjón af þróun gengis frá því ári telur meiri hlutinn að tímabært sé að hækka fjárhæðarmörkin auk þess sem meiri hlutinn telur ekki þörf á að hafa sérstök mörk fyrir verðmæti einstaks hlutar.“

Þá segir um niðurfellingu tolla á reiðhjól, að tillagan sé lögð fram með hliðsjón af þeirri stefnu að skapa aukið samræmi. „Er þetta gert með það að markmiði að efla vistvænar samgöngur og til samræmis við tillögur í skýrslu nefndar Alþingis um eflingu græna hagkerfisins frá september 2011, sem og nýlegar niðurfellingar, endurgreiðslur og lækkanir á opinberum gjöldum á vistvænar bifreiðar.“

Samkvæmt upplýsingum frá fjármála- og efnahagsráðuneyti ætti sú aðgerð að fella niður tolla á reiðhjól að kosta ríkið um 30 milljónir króna.

 

Uppruni: http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/12/19/hamark_a_tollfrjalsum_varningi_haekkad/

Mynd LHM. Tekin á hjólaráðstefnunni Samgönguviku 2012 af hjóli sem var hjólað yfir Vatnajökul 1992