Bann án viðurlaga á Suðurgötu

Suðurgata -mbl.is„Þetta er vilji borgarinnar að þarna sé sett einstefna og lögreglustjórinn þarf svo að samþykkja það,“ segir Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Fyrir nokkrum mánuðum setti Reykjavíkurborg upp einstefnumerki á Suðurgötu við gamla kirkjugarðinn í Reykjavík. Geir Jón segir borgina hafa farið út í þá aðgerð án þess að fyrir lægi samþykki lögreglustjóra.

„Það er ekki búið að auglýsa þessa lokun. Ef þú gerir það [keyrir gegn einstefnumerkinu á Suðurgötu] er ekki hægt að sekta þig, því þetta er ekki frágengið,“ segir Geir Jón og bendir á að borgin hafi aftur á móti heimild til að setja upp bráðabirgðaskilti þar sem umferð er breytt í stuttan tíma. Að sögn Geirs Jóns vantar ýmislegt upp á að samþykkt fáist, s.s. betri merkingar við hjólreiðastíg sem liggur meðfram akrein.

Stefán Finnsson, verkfræðingur hjá umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar, segir að borgin hafi sett yfirborðsmerkingar á götuna en það hafi lögreglu fundist ótækt. Þá hafi lögregla viljað að settur yrði kantur til að aðgreina hjólreiðastíg frá akbraut. Um ágreining við lögregluna sé að ræða um útfærslu götunnar.

Að sögn Stefáns hafa breytingar á götunni dregist en borgin þarf að bjóða út verkið. Má ætla að einhver tími muni líða áður en bannmerkið öðlast samþykki lögreglu.

Uppruni: Morgunblaðið - 20. júlí 2011 http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/07/20/bann_an_vidurlaga_a_sudurgotu/