Hjólað til stuðnings Axarvegi

mbl-100904Stríðsöxin verður ekki grafin fyrr en framkvæmdum lýkur á veginum á Öxi Styttir hringveginn um 71 kílómetra

Djúpivogur | Sveitarstjórnarmenn í Djúpavogshreppi hafa um árabil barist fyrir bættum samgöngum á svæðinu og á síðustu árum hefur heilsársvegur um Öxi verið helsta baráttumálið. Síðastliðið haust átti nýframkvæmd um Öxi að vera klár til útboðs samkvæmt loforðum frá samgönguyfirvöldum en þessu framfaramáli í samgöngum á Austurlandi hefur seinkað eins og öðrum framkvæmdum vegna fjármálakreppunnar.

Nú í aðdraganda þess að Alþingi kemur saman, þar sem samgönguáætlun verður til umræðu, ákváðu oddviti Djúpavogshrepps, Andrés Skúlason, sem einnig er fréttaritari Morgunblaðsins, varaoddviti, Bryndís Reynisdóttir, og formaður Átthagafélags Djúpavogs, Þorbjörg Sandholt, að hjóla til stuðnings Axarvegi, alls 85 km leið á Egilsstaði til að minna á þessa brýnu og mikilvægu samgöngubót sem verður með nýjum og fullbúnum vegi um Öxi.

Jafnframt vildu hjólreiðakapparnir minna á að vegurinn um Öxi er ekki bara gríðarleg samgöngubót fyrir íbúa Djúpavogshrepps heldur alla vegfarendur sem vilja hafa þann kost að stytta sér leið milli svæða. Stytting á leiðinni um Öxi miðað við svokallaða fjarðaleið er 71 km, þannig að hvergi í öllu hringvegakerfinu er jafn mikil stytting í boði fyrir vegfarendur. Þar sem eitt af helstu markmiðum samgönguyfirvalda er að stytta leiðir milli svæða er litið svo á að hér sé um mjög hagkvæma framkvæmd að ræða. Það eru miklar vonir bundnar við að nýframkvæmd heilsársvegar um Öxi verði sett inn meðal verkefna í fremstu röð þegar yfirvöld samgöngumála koma saman og forgangsraða framkvæmdum á svæðinu á hausti komanda.

Hjólreiðagörpunum sóttist vel ferðin um Öxi frá Djúpavogi til Egilsstaða en þeir fengu smá mótvind síðustu 10 kílómetrana, sem tók aðeins í fæturna.

Við endamarkið við gatnamót Egilsstaðabýlisins komu hjólakapparnir svo brunandi í bæinn þar sem oddvitinn hélt á lofti stórri útskorinni öxi svona til að minna með táknrænum hætti á málstaðinn. Við gatnamótin tók formaður bæjarráðs á Fljótsdalshéraði, Gunnar Sveinsson, á móti ferðalöngunum þremur og færði þeim að gjöf nýja og enn stærri öxi úr hreinu stáli.

Við þessa móttökuathöfn sagði oddviti Djúpavogshrepps bæði í gamni og alvöru að öxin sem hann héldi á væri sannkölluð stríðsöxi og hún yrði ekki grafin fyrr en framkvæmdum lyki á Öxi.

Hjólaferðin tók rúmlega fimm tíma og er sannarlegur áhugi á að endurtaka þennan viðburð meðan ástæða þykir til.

 
Mynd: Komin í mark Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps, Þorbjörg Sandholt, form. Átthagafélags Djúpavogs, og Bryndís Reynisdóttir varaoddviti.

Frétt í Morgunblaðinu 4 september 2010