Rúmlega 200.000 reiðhjól flutt inn á síðustu tíu árum

  • Reiðhjólaverslunum fjölgar á höfuðborgarsvæðinu
  • Helmingi færri fólksbílar

Á árunum 2002 til 2011 voru flutt inn ríflega 206.000 reiðhjól til landsins. Þótt sala á reiðhjólum hafi dalað í kjölfar hrunsins eru enn að bætast við hjólreiðaverslanir og -verkstæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Þessa dagana taka reiðhjólaverslanir við nýjum hjólasendingum og ljóst að þeir sem ætla að kaupa sér hjól hafa úr mikilli flóru að velja.

Á þessu sama tíu ára tímabili voru fluttar inn um 99.000 fólksbifreiðar, samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu. Innflutningur á bílum hrundi árið 2008 og þótt hann hafi aðeins tekið við sér voru í fyrra aðeins fluttir inn tæplega 6.000 fólksbílar, þar af voru 2.632 seldir til einstaklinga. Á sama tíma voru flutt inn ríflega 16.000 reiðhjól.

Innflutningur á reiðhjólum náði hámarki árið 2008 þegar yfir 28.000 hjól voru flutt til landsins, skv. upplýsingum frá Hagstofunni. Jón Þór Skaftason, verslunarstjóri í Erninum, segir að þá hafi verslanir pantað inn miðað við söluna árið 2007 og í kjölfarið hafi sumir setið uppi með stóra lagera. Hann segir fólk velja sér hjól með öðru hugarfari en árin fyrir hrun; þá hafi margir keypt hjól bara til að eiga þau og fara í einstaka hjólatúr með fjölskyldunni en nú kaupi fólk hjól frekar til að nota þau mikið. Sala í vönduðum og dýrum hjólum hafi hlutfallslega aukist.

Þá hafi sala á aukahlutum og varahlutum að minnsta kosti þrefaldast og sífellt fleiri kaupi sér hjólafatnað.

Albert Jakobsson, formaður Hjólreiðafélags Reykjavíkur, segir að þjónusta fyrir hjólreiðamenn hafi verið með miklum ágætum í kringum 1980 og á vef Fjallahjólaklúbbsins má lesa að það ár hafi 18 aðilar flutt inn reiðhjól til landsins.

Albert segir að síðan hafi þjónustan dalað en aftur tekið við sér í kringum 1990 þegar fjallahjólin fóru að ryðja sér til rúms. „Svo er þetta svolítið að springa út hjá okkur aftur síðastliðin fimm ár og sérstaklega núna finnst mér sem mikill kraftur sé að koma í menn," segir hann.

Í HFR hjóla menn mest á svonefndum götuhjólum og segir Albert að þjónusta við þau hafi stóraukist samhliða auknum áhuga á keppnishjólreiðum. „Svo hefur þríþrautin sprengt þetta út, þar eru menn að kaupa sér flottar græjur."

mbl-120312-hjolaverslanir

Þrjú viðgerðanámskeið í apríl

Brynjar Kristinsson, formaður Fjallahjólaklúbbsins, segir að skýringin á fjölgun verslana og verkstæða sé einfaldlega sú að hjólreiðafólki hafi fjölgað og markaðurinn því stækkað. Tíminn á reiðhjólaverkstæðum er ekki dýr en margir kjósa að gera sjálfir við hjólin sín. Fjallahjólaklúbburinn heldur reglulega viðgerðanámskeið og eru þrjú slík á döfinni í apríl.

Einnig er klúbburinn með opið hús á fimmtudagskvöldum þar sem hægt er að nálgast verkfæri og ráðgjöf. www. fjallahjolaklubburinn.is


Uppruni: Morgunblaðið 12. mars 2012