Á 75 kílómetra hraða á ítölskum stálfáki - mbl.is

mbl100427hfrÍ flestum öðrum löndum Vestur-Evrópu, þ.ám. í Færeyjum, er mikil hefð fyrir keppni á götuhjólum og þótt sú frægasta sé Tour de France skipta keppnirnar mörgum hundruðum. Hér á landi er lítil hefð fyrir götuhjólreiðum en hún er hægt og bítandi að festast í sessi.

 

Áhuginn hefur aukist töluvert á síðustu árum og viðhorfið til hjólreiða hefur blessunarlega breyst, að sögn Alberts Jakobssonar, formanns Hjólreiðafélags Reykjavíkur (HFR). "Það er fyrst núna sem fólk horfir á mann án þess að hugsa: Þú ert eitthvað skrítinn," segir hann.

Albert Jakobsson

Albert og félagar hans í HFR æfa hjólreiðar allt árið um kring og á sumrin stendur félagið fyrir ellefu keppnum í götuhjólreiðum, auk þess sem félagið heldur keppnir á fjallahjólum og keppnir í fjallabruni (e. downhill). Lengsta keppnin er 161 km á Snæfellsnesi en flestar er mun styttri og viðráðanlegri.

Kannski með smábumbu

Albert segir að meðal þeirra sem bætast í hópinn séu karlmenn á aldrinum 30-45 ára mest áberandi. "Þeir eru margir búnir að skila barnahlutverkinu og eru kannski komnir með smábumbu. Þetta er svolítið stór hópur," segir hann. Oft séu þetta skrifstofumenn sem nota hjólreiðarnar til að ná úr sér "hrollinum og stressinu".

Sá sem vill stunda götuhjólreiðar þarf auðvitað götuhjól, annaðhvort nýtt eða notað. Töluvert framboð er í verslunum hér á landi en einnig má sjá upplýsingar um notuð hjól á ýmsum vefsíðum, m.a. á www.hfr.is.

Smellupedalar nauðsynlegir

Albert segir að smellupedalar séu nauðsynlegur búnaður á slíku hjóli (spd-pedalar) og hjólaskór sem smellt er föstum við pedalana. Þeir sem hjóla langar vegalengdir á götuhjólum fá sér yfirleitt sérstaka götuhjóla-smellupedala en þeir eru með stærri flöt til að stíga á en þeir pedalar sem eru notaðir t.d. á fjallahjólum.

Þeir sem hjóla með smellupedala ná mun meiri krafti út úr hverjum snúningi en þeir sem eru á gamaldags pedölum. Munurinn er satt að segja gríðarlegur og þeir sem hafa einu sinni prófað smellupedala vilja ógjarnan skipta yfir á venjulegu pedalana aftur. Ókosturinn við að smella skónum föstum við pedalana er sá að byrjendur eiga oft í vandræðum með að losa sig úr pedölunum á réttum tíma og þeir eiga því það til að detta kylliflatir, t.d. við gatnamót. Þetta venst þó fljótt.

Götuhjól ná mun meiri hraða en t.d. fjallahjól og á sléttum, beinum kafla getur meðalhraðinn verið um 35-40 km/klst, að því gefnu að ekki blási stíft á móti. Á leið niður brekkur getur hraðinn orðið mun meiri og sem dæmi má nefna að þegar Albert hjólaði niður af Mosfellsheiði á sumardaginn fyrsta, með smá vind í bakið, náði hann 75 km hraða á hjólinu. Hér er komin skýringin á því að hjólreiðamenn klæðast þröngum fatnaði; á þessum hraða munar mun meira um vindmótstöðuna en þegar hjólað er á 15-24 km hraða, sem algengt er að "venjulegt" fólk hjóli á.

300 í fjölmennustu keppninni

Langfjölmennasta keppnin sem félagið stendur fyrir er Bláalónsþrautin, á fjallahjólum, sem haldin verður þann 13. júní næstkomandi. Boðið er upp á tvær vegalengdir, 40 km og 60 km. Albert býst við um og yfir 300 keppendum. Keppnisdagskrána má sjá á www.hfr.is.


Hjólreiðafélag Reykjavíkur var stofnað af sendlum í Reykjavík árið 1924. Félagið var lengi í dvala áður en það var endurvakið um 1980. Félagið stendur fyrir æfingum allan ársins hring og fjölda hjólreiðakeppna að vori og sumri.

Mikilvægt að hugsa um sitjandann

Langir hjólreiðatúrar reyna óhjákvæmilega á sitjandann. Albert Jakobsson segir að fljótlega eftir að menn fari að æfa fyrir alvöru myndist eins konar ...

Langir hjólreiðatúrar reyna óhjákvæmilega á sitjandann. Albert Jakobsson segir að fljótlega eftir að menn fari að æfa fyrir alvöru myndist eins konar sigg á sitjandabeinið. Þá skipti val á hnakki miklu máli en jafnvel menn sem hafi hjólað árum saman þurfi að venjast nýjum hnakki. "Þetta tekur svona hálfan mánuð sem menn eru svona sárir," segir Albert.

Þá sé gríðarlega mikilvægt að vera ekki í nærbuxum innan undir púðabuxum. "Þetta eru líklega algengustu mistök sem menn gera. Fólk býr til alls konar vandamál með þessu, sýkingar og fleira."

Á fjallahjólum og nagladekkjum á veturna

Félagar í Hjólreiðafélagi Reykjavíkur fara víða til að æfa og keppa, m.a. til Danmerkur, Bandaríkjanna, Mallorca og Krítar. Um hvítasunnuhelgina tekur hópur frá félaginu þátt í þriggja daga móti við Árósa í Danmörku. Yfirleitt er keppt við Færeyjar einu sinni á ári. Ísland beið lægri hlut fyrir Færeyingum í fyrra en vann sigur fjögur ár þar á undan. Albert segir Færeyinga býsna öfluga. "Þeir eru með dönsku hefðina," segir hann.

HFR heldur æfingar allan ársins hring og alltaf er hjólað úti, á fjallahjólum á nagladekkjum á veturna en á götuhjólum um leið og Reykjavíkurborg hefur látið sópa útivistarstígana á vorin. Götuhjólin þola enga möl eða sand þar sem dekkin eru rennislétt. Götuhjól getur hæglega runnið á hliðina í litlum sandi.

Eftir Rúnar Pálmason - Morgunblaðið 27 apríl 2010